Látum draumana rætast í menntakerfinu

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi:

Látum draumana rætast er yfirskrift menntastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030. Við munum ekki geta látið drauma alls ungs fólks rætast án þess að efla list- og verkgreinar í grunnskólum.

Samkvæmt rannsóknum hérlendis fer áhugasvið og námsval nemenda oft ekki saman. Þetta birtist í því að nemendur hefja ekki endilega nám sem hentar þeim og þeim er ekki beint í það. Í dag geta börn einungis nefnt fjórar til sex námsleiðir að meðaltali þegar spurt er um aðrar leiðir í námi en hefðbundið nám til stúdentsprófs. Í boði eru um eitt hundrað leiðir.

Það blasir við að börnum eru ekki kynntir nægilega vel þeir möguleikar sem eru í boði. Að einhverju leyti er orsökin sú að grunnskólum hefur reynst erfitt að uppfylla gildandi viðmið um list- og verkgreinar aðalnámskrár. Því er mikilvægt að tryggja skólastjórnendum allt sem til þarf til að uppfylla þessi viðmið; aðstöðu og hæft starfsfólk. Einnig kann að vera að forgangsraða þurfi fé betur til þessara mála.

Iðnaður skapar fjórðung landsframleiðslu Íslendinga og rúmlega þriðjung gjaldeyristekna. Iðn-, tækni- og verkmenntun er þó enn óæðri í löggjöf, hugsun og framkvæmd. Aðeins sextán prósent nýnema á framhaldsskólastigi skrá sig í iðngreinar á sama tíma og mikill skortur er á iðnmenntuðu vinnuafli. Þessi skekkja milli menntunar og eftirspurnar eftir vinnuafli er þegar mikil og mun trúlega verða enn meiri.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem leggur sveinspróf að jöfnu við stúdentspróf sem inntökuskilyrði í háskóla. Þannig opnast dyr iðnmenntaðra að háskólanámi og ímynd náms og starfa sem tengjast iðnmenntun styrkist.

Þá samþykkti skóla- og frístundaráð nýlega að auka vægi þessara greina í grunnskólum í Reykjavík. Samþykktin er ágætis byrjun en mikilvægt er að fylgja málinu vel eftir. Grunnskólar í Reykjavík eru ekki að standa sig nægjanlega vel í að kynna aðrar námsleiðir fyrir börnunum okkar. Við getum ekki aukið áhuga barna á einhverju sem þau þekkja ekki.

Efling list- og verkgreina er mikilvægt skref í átt að markmiðinu um að láta draumana rætast.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. nóvember 2018.