Með staðreyndir að vopni

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfasdóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

Í síðasta pistli fjallaði ég um tortryggni í garð sérfræðinga og mikilvægi gagnrýninnar hugsunar, en benti undir lokin á að þótt sérfræðingum gæti vissulega skjátlast mættum við ekki samþykkja tilburði til að gera það orð beinlínis að skammaryrði, enda yrðum við þá auðveld bráð lýðskrumara.

Það var viðeigandi að næsta bók sem varð á vegi mínum fjallar um skylda hluti, nefnilega þá staðreynd að mannfólkinu hættir til að mistúlka heiminn vegna meðfæddra tilhneiginga sem skekkja sjónarhorn okkar.

Lokatilraun Roslings

Sá sem bendir á þetta er Hans Rosling heitinn, sá vinsæli sænski vísindamaður og fyrirlesari. Ekki er langsótt að kalla Rosling einn helsta boðbera góðra tíðinda á okkar dögum, því að hann sýndi fram á það með gögnum að bölsýni á þróun, stöðu og horfur mannkyns er ekki bara almenn og útbreidd heldur oft í algjörri andstöðu við staðreyndir. Það er eins og við sjáum ekki „hið hljóðláta kraftaverk framfara“; það fer fram hjá okkur.

Rosling var merkisberi staðreynda og gagna. Nýjasta og því miður einnig hinsta bók hans kom út fyrr á þessu ári og heitir „Factfulness“. Þetta sérkennilega heiti er líklega tilvísun í fyrirbærið „mindfulness“ eða „núvitund“. Með hliðsjón af því mætti kannski þýða heiti bókarinnar sem „staðreyndavitund“ eða jafnvel „svovitund“, samanber spurninguna „Er það svo?“ í merkingunni „þannig“ eða „rétt“.

Rosling segir að bókin sé lokatilraun sín til að leiðrétta hrikalega vanþekkingu fólks á raunverulegum árangri, stöðu og horfum í mannlegu samfélagi. Hann nefnir ótal dæmi um spurningar þar að lútandi sem yfirgnæfandi meirihluti fólks svarar vitlaust í könnun eftir könnun, í hverju landinu á fætur öðru, hversu vel upplýstir sem þátttakendur eru.

Aparnir í Davos

Ein spurningin er um það hvernig hlutfall mannkyns sem býr við örbirgð hefur þróast á undanförnum 20 árum. Þrír svarmöguleikar eru gefnir: að hlutfallið hafi næstum tvöfaldast, að það hafi minnkað um næstum helming, eða haldist nokkurn veginn óbreytt. Hið rétta er að hlutfallið hefur minnkað um næstum helming, sem Rosling kallar mikilvægustu breytingu sem hafi orðið á mannlegu samfélagi á hans líftíma. Aðeins 7% fólks giskar á það svar.

Önnur spurning lýtur að því hvort árleg dauðsföll af völdum náttúruhamfara séu álíka mörg í dag og fyrir 100 árum, tvisvar sinnum fleiri eða helmingi færri. Hið rétta er að þau eru helmingi færri, en aðeins 10% fólks velja það svar.

Villan í svörunum er næstum undantekningarlaust á þá leið að árangurinn sem náðst hefur er stórlega vanmetinn og staða og horfur máluð miklu dekkri litum en tilefni er til. Og svörin eru ekki bara vitlaus heldur mun vitlausari en búast mætti við af handahófskenndum svörum algjörra vanvita. Meira að segja helstu forystumenn í stjórnmálum og viðskiptalífi heimsins stóðu sig verr en sjimpansar hefðu gert í meirihluta spurninganna sem Rosling lagði fyrir þá í Davos.

Það þótti Rosling óendanlega merkilegt – og lesandinn kemst ekki hjá því að fá dálitla samúð með þessum riddara staðreyndanna, sem þarna áttar sig á því hversu lítið þær mega sín stundum andspænis gölluðu innsæi jafnvel merkustu manna.

Ótti og fleiri skekkjuvaldar

Rosling nefnir tíu hugsanavillur og einkenni á mannlegu eðli sem skýra hvers vegna okkur hættir til að vanmeta kerfisbundið árangur, stöðu og horfur varðandi lífskjör og lífsgæði. Ótti vegur þar þungt. Einnig tilhneiging okkar til að búa til andstæður fremur en að sjá blæbrigði, og tilhneiging okkar til að varpa þróun í fortíð óbreyttri yfir á framtíðina. Hann nefnir fleira, og gefur okkur í hvert sinn ráð um hvernig við getum reynt að vera meðvituð um þessar villur og skekkjur, sem sagt hvernig við getum stundað „staðreyndavitund“ eða „svovitund“.

Sú hugsun verður ágeng við lesturinn að þessa bók Roslings þyrfti allt ungt fólk að lesa, en hinir eldri ekki síður.

Rétt er að nefna að Rosling leggur þunga áherslu á að með því að opna augu okkar fyrir stórkostlegum framförum mannkyns sé hann að sjálfsögðu ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr þeim vanda sem enn er óleystur.

Það væri verðugt verkefni að stilla upp spurningum í stíl Roslings um þróun og stöðu í íslensku samfélagi.

Greinin birtist fyrst í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. nóvember 2018.