Vinnandi fólk vill fá eitthvað fyrir peninginn

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg siglt í gegnum fordæmalaust tekjugóðæri. Tekjur borgarsjóðs hafa hækkað langt umfram verðlagsbreytingar og íbúaþróun. Samhliða hefur grunnþjónusta hvergi batnað. Ekki er ljóst hvert fjármagnið fór. Ekki fór það í samgöngulausnir eða leikskóla. Ekki fór það í lausnir við húsnæðisvanda borgarbúa. Ekki leiddi það til bættra lífskjara.

Borgarbúar greiða sífellt hærra gjald fyrir grunnþjónustu sem ekki er veitt. Við borgum nú meira en fáum minna. Málið er einfalt. Vinnandi fólk vill fá eitthvað fyrir peninginn. Gerist þess ekki kostur, er bæði réttlátt og eðlilegt að íhuga skattalækkanir.

Innlegg í komandi kjaraviðræður

Útsvar í Reykjavík er í lögleyfðu hámarki. Fasteignamat hefur hækkað verulega og krónutala fasteignagjalda fer sífellt hækkandi. Svigrúm í rekstri Orkuveitunnar hefur ekki verið nýtt til gjaldskrárlækkana. Borgarbúar skattpíndir á öllum vígstöðvum.

Nágrannasveitarfélög innheimta lægra útsvar. Þau bjóða betri grunnþjónustu. Höfuðborgin er ekki eingöngu í samkeppni við erlendar borgir um fólk og atgervi, hún er í samkeppni við önnur innlend sveitarfélög. Fólk flyst þangað sem lífskjör mælast betri.

Lækkun útsvars er hagsmunamál fyrir alla þjóðfélagshópa. Skattastefna sveitarfélaga hefur meiri áhrif á launafólk en álagning ríkisins á tekjuskatti. Útsvarsprósentan skiptir láglaunafólk miklu máli. Einstaklingur með lágmarkslaun greiðir um helmingi hærri fjárhæð í útsvar til sveitarfélags, en í tekjuskatt til ríkisins. Lækkun útsvars er mikilvægt innlegg í komandi kjaraviðræður. Lækkaðar álögur skipta borgarbúa máli.

Lækkum útsvar í Reykjavík

Í dag starfa 12% vinnandi borgarbúa hjá Reykjavíkurborg. Það er 20% hærra hlutfall en hjá Kópavogsbæ. Báknið er uppblásið og yfirbyggingin stór. Stærðarhagkvæmni engin. Afgreiðsla erinda flókin og boðleiðir langar. Borgarkerfið flækist fyrir sjálfu sér. Við þurfum minni yfirbyggingu og forgangsröðun verkefna. Við þurfum ábyrga fjármálastjórn. Þannig má hagræða og spara umtalsvert skattfé. Þessu aukna fjárhagslega svigrúmi mætti skila beint aftur til borgarbúa í formi skattalækkana.

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvar í Reykjavík niður fyrir 14%. Það mætti gera í fjórum þrepum fyrir lok þessa kjörtímabils. Núverandi meirihluti í borgarstjórn telur stjórnmálafólk best til þess fallið að verja fjármunum annarra. Við aðhyllumst ekki sama stef. Við teljum engum betur treystandi fyrir fjármunum en einmitt þeim sem afla þeirra. Borgarbúum. Það er ekki lögmál að skattar og gjöld geti eingöngu hækkað en aldrei lækkað. Við viljum lækka álögur. Við viljum lækka skatta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2018.