Tryggjum umferðaröryggi barna

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi skrifar:

Slys á börnum í íbúðahverfum hefur  því miður farið fjölgandi eins og fram kemur í nýútkominni rannsóknarskýrslu sem styrkt var af Vegagerðarinni. Við því verður að bregðast strax bæði með aukinni fræðslu og samgöngubótum sem auka öryggi barna í umferðinni.  Á sama tíma og hvatt er til þess að börn fari gangandi eða hjólandi í skóla og í frístundir þarf umferðaröryggi að vera eins og best verður á kosið. Gera þarf átak í því að merkja gangbrautir en víða er pottur  brotinn hvað slíkar merkingar snertir, meira og minna í öllum hverfum borgarinnar.

Samræma þarf merkingar gangbrauta

Þá er mikð ósamræmi  í gönguþverunum og ýmsar útfærslur notaðar eins og t.d. upphækkanir, götumynstur í alls konar litum og með alls konar afbrigðum, götukoddar  og línur og það sem enn verra er að sums staðar eru alls engar merkingar þar sem gert er ráð fyrir gönguþverunum.

Allt þetta misræmi í merkingum  er til þess eins fallið að draga úr umferðaröryggi gangandi vegfaranda sem auðveldlega geta ruglast í rýminu og ökumenn og vegfarendur eru ekki með það á hreinu  hver hafi forgang.

Sebramerktar gangbrautir í Reykjavík eru orðnar fáséðar og sömuleiðis vantar meira og minna skilti og merkingar sem sýna að um gangbraut sé að ræða. Auk þess sem lýsingu er mjög víða ábótavant við gangbrautir sem getur skapað verulega hættu. Þá er sýnileiki gangandi vegfarenda oft takmarkaður vegna þess að bílatæði og trjágróður er mjög nærri gangbrautum og skerða útsýni ökumanna þannig að erfitt getur verið sjá þá sem standa við gangbrautina og þá sérstaklega börn sem ekki eru há í loftinu.

Það er ljóst af  þessu að umferðalögum og reglugerðum er ekki fylgt eftir og þær eru víða þverbrotnar.  í umferðarlögum er fjallað skýrt um gangbrautir, umferðarrétt á þeim og hvernig þær skulu úr garði gerðar. Í 26. grein laganna segir m.a. að  ökumaður skuli nema staðar, ef nauðsyn krefur til að veita hinum gangandi færi á að komast yfir akbrautina  og  Í reglugerð 289/1995 er kveðið á um að gangbraut skuli merkt með umferðarmerki báðum megin akbrautar sem og á miðeyju þar sem hún er. Þá skal merkja gangbraut með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut.(Sebrabrautir). Réttur gangandi vegfaranda er því skýr þegar þessi  skilyrði eru uppfyllt.

Með því að notaðar séu samræmdar merkingar eins og lög kveða á um aukum við umferðaröryggið og ekki síst þegar börn eiga í hlut enda er þeim kennt  í umferðarfræðslu hvernig fara eigi yfir götu á sérmerktum gangbrautum.  Það vita það allir uppalednur og þeir sem vinna að uppeldismálum að reglur fyrir börn þurfa að vera skýrar og augljósar  en alls ekki misvísandi.

Í flestum sveitarfélögum í kringum okkur er lagður metnaður í að merkja gangbrautir í samræmi við lög og reglugerðir enda eru gangbrautarmerkingar þar til fyrirmyndar en því miður hefur verið misbrestur á því í höfuðborginni og því full þörf á að gera bragarbót á því hið fyrsta.

Forgangsröðum í þágu yngstu vegfarendanna

Við eigum að forgangsraða í þágu yngstu vegfarendanna og  byrja á að lagfæra gangbrautir á gönguleiðum barna til og frá skóla og koma þar upp skiltum og góðri lýsingu eins og lög kveða á um. Í október fyrir ári síðan lögðum við sjálfstæðismenn til í borgarstjórn að merkingar á gangbrautum yrðu lagfærðar og merkingar þeirra samræmdar, tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagssviðs til meðferðar en því miður hefur lítið heyrst um hana síðan.  Það er ljóst að umferðarlögum og reglugerðum hefur ekki verið fylgt eftir í Reykjavík hvað gangbrautir snertir en úr því verður að bæta hið fyrsta til að tryggja umferðaröryggi og koma í veg fyrir slys á börnum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, þann 26. október sl.