Hvers vegna þurfum við borgarstjóra eða borgarstjórn

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Réttilega hafa skapast miklar umræður um Braggann við Nauthólsveg 100. Það gríðarlega sukk sem hefur verið með fjármuni borgarbúa er sorglegt dæmi um þá miklu óstjórn sem er í Reykjavík. Því miður er Bragginn aðeins eitt dæmi um þá fjármálaóreiðu sem viðgengist hefur. Það hafa farið 800 milljónir í framúrkeyrslu á þremur verkefnum, Bragganum, Írabakka og Hlemm Mathöll. Þetta eru aðeins þrjú af fjölmörgum verkefnum. Það væri hægt að gera mikið fyrir leik-, grunnskóla eða heimilislausa fyrir þessar 800 milljónir. Engan skal undra að allir skattar og gjöld séu í botni og ekki hafi tekist að greiða niður skuldir.

Fjármálaóstjórn

Staðreyndin er sú að skuldir borgarsjóðs hafa aukist nálægt milljarði á mánuði síðastliðin fjögur ár. Það eru um fjörutíu milljarðar. Þetta er að gerast í lengsta og mesta tekjugóðæri sem skapast hefur. Hvernig má það vera, það er eins og óstjórn ríki þegar kemur að fjármálum borgarinnar. Við erum með borgarstjóra sem á að stjórna líkt og framkvæmdarstjóri í fyrirtæki. Gæluverkefni virðast ganga fyrir uppbyggingu á grunnþjónustu.

Ef þeir sem sitja í skipstjórastólnum líkt og borgarstjóri vita ekkert um mál líkt og Braggann, til hvers erum við þá með borgarstjóra og kjörna fulltrúa? Það er borgarstjóri ásamt sínum meirihluta sem á að bera ábyrgð á rekstri Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri er ekki bara til þess að brosa framan í myndavélar á tyllidögum. Við erum að reka eitt af stærstu fyrirtækjum landsins með skattpeningum borgarbúa. Ef ekki er hægt að gera það með gagnsæi og af virðingu við þá sem borga brúsann þá er illa komið fyrir okkur öllum.

Leiðinda mál sem virðist vera óþarfi að svara fyrir

Þetta er allt hið vandræðalegasta mál og eftir því sem kafað er dýpra því furðulegra verður það. Það undarlegasta er þó að núverandi meirihluti vill sem minnst ræða um málið, því hefur verið skotið til Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, á meðan á ekki að ræða það nema um það að hugsanlega mistök hafi átt sér stað.

Það síðasta sem ég hugsa um er orðið mistök þegar ég hugsa um Braggann, Írabakka og Hlemm Mathöll. Það geta allir gert mistök og þau er hægt að fyrirgefa,en það að fara fram úr áætlunum svo hundruðum milljónum skiptir eru ekki mistök það er mun alvarlegra en svo.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. október.