Tími, peningar og lélegar samgöngur

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar:

Tveir þriðju hlutar landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu og rúmar tvær milljónir ferðamanna fara í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog að minnsta kosti tvisvar á hverju einasta ári. Þetta virðist algjörlega hafa farið framhjá þeim sem standa að samgönguáætlun sem nú er til umræðu á Alþingi.

Stytting vinnuvikunnar er líka talsvert í umræðunni og ekki úr vegi að tengja þetta tvennt saman. Hversu margar vinnustundir fara í súginn á hverjum einasta degi sökum yfirgengilegs umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu? Hversu mikill tími fer í samgöngur til og frá vinnu?

Í hvert sinn sem ég skoða samgönguáætlun verð ég æ sannfærðari um að minnka ætti pólitísk áhrif á vegaframkvæmdir. Höfuðborgarsvæðið fengi þá ef til vill meira vægi og fjármunum yrði ráðstafað frekar þannig að þeir myndu gagnast sem flestum.

Málið snýst ekki eingöngu um að koma Hafnfirðingum, Garðbæingum og Kópavogsbúum auk tveimur milljónum ferðamanna á milli A og B heldur líka, og ekki síður, um fólkið og byggðina í Garðabæ sem nú er klofin í tvennt af stútfullri stofnbraut þar sem umferð gengur allt of, allt of hægt – á hverjum einasta virka degi. Við verðum að fara að hugsa vegalausnir á höfuðborgarsvæðinu í stærra samhengi. Ekki bara í fyrirferðarmiklum gatnamótum heldur vegstokkum og mislægum gatnamótum. Vegatollar eiga líka að koma sterklega til greina. Þetta er risamál sem hefur verið í ólestri alltof lengi.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti samhljóða ályktun þar sem umrædd samgönguáætlun er gagnrýnd harðlega. Meira fjármagn til nýframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu er nauðsynlegt til að leysa og létta á umferðarþunga. Núverandi ástand er ólíðandi.