Umferðaröryggi í Grafarvogi

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Víða þarf að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Grafarvogi. Mjög góð úttekt var gerð á vegum hverfisráðs Grafarvogs á umferðaröryggi í Grafarvogi. Afraksturinn var skýrsla sem kom út árið 2014 og var þá afhent Reykjavíkurborg. Þar var meðal annars bent á hættulega slysastaði, vöntun á gangbrautum, hraðahindranir ásamt fjölda annara atriða. Skýrslan tók bæði á litlum og stórum atriðum til að bæta öryggi allra.

Því miður þá fór það svo að ekkert hefur verið gert af þeim úrbótum sem lagt var til að farið yrði í. Öll sú vinna sem fór í það að gera þessa skýrslu og þær frábæru úrlausnir sem var komið með urðu því að engu. Við vitum öll að við eigum hvergi að slaka á þegar kemur að bættu öryggi í umferðinni. Því lagði ég það til á fundi samgöngu- og skipulagsráðs í síðustu viku að farið yrði í tafarlausar úrbætur á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Grafarvogi eins og lagt er til í skýrslunni. Mikilvægt er að við fáum gangbrautir sem eru löglegar og skilgreindar samkvæmt umferðarlögum.

Ótækt að ekki sé brugðist við

Ólíkt sveitarfélögum í kringum okkur þá hefur Reykjavíkurborg ekki sinnt því að setja upp gangbrautir. Þess í stað er notuð skilgreiningin gönguþverun. Þar eru ekki sebramerkingar á götu og ekki skilti sem gefur til kynna að þar sé gangandi eða hjólandi umferð. Gönguþverun er ekki til samkvæmt umferðarlögum og skapar gríðarlega hættu. Slíkar gönguþveranir má finna víða í Grafarvogi t.d við Spöngina. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég óskaði eftir að myndu verða löguð tafarlaust.

Við verðum að tryggja öryggi allra sem best í umferðinni og það er ótækt að ekki sé brugðist við þegar bent er á það sem betur má fara. Nú vona ég að núverandi meirihluti taki vel í þessa ósk okkar Sjálfstæðismanna og strax verði ráðist í lagfæringar og úrbætur.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu 18. október.