Sérfræðingar í sumarfríi?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Hefur formaður utanríkismálanefndar Alþingis ekki um nóg annað að hugsa en að gagnrýna borgarstjórnina í Reykjavík?

Þetta voru viðbrögðin sem ég fékk frá innanbúðarmanni í Samfylkingunni þegar ég fyrir nokkrum dögum nýtti þennan vettvang til að skrifa um braggamálið í Reykjavík sem töluvert hefur verið fjallað um í fjölmiðlum að undanförnu. Nú er það reyndar svo að undirrituð er fyrst og fremst þingmaður Reykvíkinga og hefur því eðlilega nokkurn áhuga á því hvernig málum er háttað í Reykjavík. Þegar rekstur borgarinnar er jafn slæmur og raun ber vitni er ástæða til að vera enn frekar vakandi fyrir hönd Reykvíkinga. Þá er gaman að segja frá því að ég hef nú skrifað á þessum vettvangi í eitt ár og efnistökin hafa verið jafn fjölbreytt og pistlarnir eru margir.

Þó að mikið hafi verið rætt um braggamálið hefur málið ekki verið tæmt og allt bendir til þess að enn eigi eftir að velta við einhverjum steinum. Það sem hins vegar vekur athygli eru viðbrögð vinstriflokkanna í Reykjavík. Sumir bregðast við eins með fyrrnefndum hætti, að þetta komi þingmönnum ekkert við og þeir eigi bara að hugsa um annað. Helst mætti skynja að borgarbúum kæmi þetta heldur ekki við, að þeir ættu bara ekkert að vera að skipta sér af þessu eða hafa skoðun á málinu.

Viðbrögð Pírata eru einnig áhugaverð. Píratar hafa fram til þess ekki þurft neinar rannsóknir eða staðreyndir til að fella stóra dóma um menn og málefni, sakaaðra um spillingu og ætla öðrum allt hið versta. Þegar braggamálið kom fyrst til tals voru fyrstu viðbrögð Pírata að saka borgarfulltrúa um „pólitískt upphlaup“ og á liðnum vikum hefur borgarfulltrúi Pírata beitt sér gegn því að óháður aðili rannsaki málið. Þegar Píratar fóru í vettvangsferð í braggann var fjölmiðlum skipað að bíða fyrir utan. Hið margumtalaða gegnsæi var gert að gluggagægi. Sömu viðbrögð einkenna aðra sem hafa fram til þess kallað eftir afsögnum kjörinna fulltrúa við minnsta tilefni. Allir álitsgjafarnir og sérfræðingarnir um vandaða stjórnsýslu eru sjálfsagt enn í sumarfríi.

Nú er það reyndar ekki svo að það ríki einhver Þórðargleði yfir þessu máli því þeir sem tapa á málinu eru að lokum skattgreiðendur í Reykjavík. Hér er einfaldlega komið upp mál, mögulega eitt af mörgum, sem opinberar það hversu illa borginni er stýrt af vinstrimönnum. Það er engin yfirsýn, engin ábyrgð og ekkert skipulag. Það sem er þó verra er að það er ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að breytast. Eins og við var að búast hefur Viðreisn stigið enn eitt skrefið til vinstri með að falla á sverðið fyrir samstarfsmenn sína í borginni. Frasinn um almannahagsmuni umfram sérhagsmuni hljómar vel, þangað til á hólminn er komið og taka þarf á málum. Þá vega sérhagsmunir vinstri meirihlutans þyngra en almannahagsmunir borgarbúa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. október 2018.