Stjórn Varðar krefst þess að utanaðkomandi aðilar rannsaki endurgerð braggans við Nauthólsveg 100

Stjórn Varðar – full­trúaráðs sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík krefst þess að ráðnir verði utanaðkomandi aðilar til að rannsaka til hlítar endurgerð braggans við Nauthólsveg 100 og þá stjórnlausu sóun almannafés sem þar hefur átt sér stað.

Framkvæmdir við endurgerð braggans hafa farið a.m.k. 257 milljónum fram úr kostnaðaráætlun og það án þess að hafa farið í útboð. Í fjölmiðlum hafa birst fjölmörg dæmi um kostnaðarliði sem hafa farið fram úr öllu hófi og nema jafnvel margföldum þeim upphæðum sem telja mætti sem eðlilegan kostnað við verkefni af þessum toga. Nauðsynlegt er að borgarstjórn Reykjavíkur sýni nú samstöðu um að komast til botns í þessu máli. Fara þarf fram ítarleg og fagleg heildarskoðun af sérfróðum og óháðum þriðja aðila þar sem rýnt verður í hvað brást í stjórnsýslu borgarinnar í tengslum við þetta mál, af hverju framkvæmdin var ekki boðin út, hvers vegna ekki voru gerðar alvarlegar athugasemdir við þá reikninga sem bárust til borgaryfirvalda í tengslum við hana sem og þátt borgarstjóra og annarra kjörinna fulltrúa í þessu máli.

Í kjölfar slíkrar rannsóknar er mikilvægt að þeir aðilar sem bera sannarlega ábyrgð á þessu klúðri sýni kjósendum og skattgreiðendum borgarinnar þá virðingu að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eiga lof skilið fyrir það aðhald sem þeir hafa veitt meirihlutanum í þessu máli og hvetur stjórnin þá til góðra verka í þessu máli sem og öðrum.