Löggilding skoðana

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Mál­frelsið er einn horn­steina lýðræðis­ins. Frelsi til að tjá skoðanir sín­ar er helg­ur rétt­ur borg­ar­anna. Sam­keppni hug­mynda og skoðana hef­ur verið aflvaki fram­fara í frjáls­um sam­fé­lög­um og leyst þau und­an ánauð harðstjóra, sem skáka ým­ist í skjóli öfga­fullra trú­ar­kenn­inga eða hug­mynda­fræði alræðis eða ein­ræðis.

Mál­frelsi er ekki aðeins frelsi til að koma sjón­ar­miðum sín­um og skoðunum á fram­færi, held­ur einnig rétt­ur­inn til að hafa rangt fyr­ir sér. Að vera for­pokaður og gam­aldags er rétt­ur allra, með sama hætti og all­ir eiga rétt til þess að boða nýj­ar hug­mynd­ir – nálg­ast hlut­ina með öðrum hætti en áður hef­ur verið gert.

Mál­frelsið er ekki bundið við skoðanir sem eru vin­sæl­ar, falla í frjó­an jarðveg eða njóta al­mennr­ar viður­kenn­ing­ar. Mál­frelsið er rétt­ur­inn til að ganga á móti straumn­um, setja fram ögr­andi skoðun – tala fyr­ir óvin­sælu sjón­ar­miði sem jafn­vel bygg­ist á staðleys­um.

Stjórn­ar­skrá­in trygg­ir öll­um frelsi skoðana sinna og sann­fær­ing­ar. Frelsið er hins veg­ar ekki án ábyrgðar. Með mál­frelsi þurfa menn að standa við orð sín og bera á þeim ábyrgð. „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugs­an­ir sín­ar, en ábyrgj­ast verður hann þær fyr­ir dómi,“ seg­ir í meðal ann­ars 73. grein grund­vall­ar­laga okk­ar. Sam­kvæmt hegn­ing­ar­lög­um er það refsi­vert að hæðast að, róg­bera, smána eða ógna manni eða hópi manna með op­in­ber­um um­mæl­um eða ann­ars kon­ar tján­ingu, „svo sem með mynd­um eða tákn­um, vegna þjóðern­is, litar­hátt­ar, kynþátt­ar, trú­ar­bragða, kyn­hneigðar eða kyn­vit­und­ar“.

Hat­ursorðræða

Sem siðað og frjálst sam­fé­lag vilj­um við koma í veg fyr­ir hat­ursorðræðu og við líðum ekki að kynt sé und­ir of­beldi gagn­vart ein­stak­ling­um eða hóp­um. En skoðanir og viðhorf sem okk­ur finnst rang­ar, fyr­ir­lit­leg­ar eða óþægi­leg­ar, get­um við ekki af­greitt með þeim ein­falda hætti að um hat­ursorðræðu sé að ræða. Við lend­um fyrr eða síðar á villi­göt­um og gröf­um und­an horn­stein­um lýðræðis­ins.

Það er ekki ein­falt að skil­greina hvað er hat­ursorðræða og hvað ekki. Á þetta er bent í riti sem Jóna Aðal­heiður Pálma­dótt­ir og Iuli­ana Kal­eni­kova sömdu og Mann­rétt­inda­skrif­stofa Íslands gaf út árið 2004. Skoða þurfi hvert til­vik fyr­ir sig og at­huga hver ásetn­ing­ur ger­anda sé og hvaða áhrif tján­ing sé lík­leg að hafa. Hvatn­ing eða áskor­un verði að vera til staðar og ásetn­ing­ur til að ýta und­ir hat­ur á ákveðnum hópi. Orðin sem sögð eru af­marka því ekki hvort um hat­ursorðræðu sé að ræða eða ekki.

Fyrr í þess­um mánuði ákvað yf­ir­stjórn Há­skól­ans í Reykja­vík að reka lektor vegna um­mæla – vissu­lega heimsku­legra um­mæla – í lokuðum hópi á sam­fé­lags­miðli. Kenn­ar­inn sem vill „síður vinna með kon­um“ virðist sann­færður um að best sé að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Fyr­ir flesta er þetta viðhorf óskilj­an­legt og merki um gráa forneskju.

Eft­ir að fjöl­miðlar fluttu frétt­ir af brottrekstr­in­um hafa for­ráðamenn HR varið ákvörðun sína með því að halda því fram að kenn­ar­inn hafi gerst sek­ur eða kunni að hafa gerst sek­ur um hat­ursorðræðu í garð kvenna. Hér er langt seilst en að lík­ind­um kem­ur til kasta dóm­stóla að kveða upp úr um það. Hitt er víst að sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing rek­tora allra ís­lenskra há­skóla, sem und­ir­rituð var árið 2005 er gleymd og ligg­ur ryk­fall­in í ein­hverri skúffu HR. Þar seg­ir meðal ann­ars:

„Há­skól­um ber að standa vörð um aka­demískt frelsi sem fel­ur m.a. í sér að ein­stak­ling­ur geti stundað rann­sókn­ir, kennslu eða nám án óeðli­legr­ar íhlut­un­ar laga, stofn­ana, eða fé­lags­hópa. Sá sem nýt­ur aka­demísks frels­is get­ur leitað þekk­ing­ar og tjáð sann­fær­ingu sína án þess að eiga á hættu að það bitni á starfs­ör­yggi hans eða öðrum mik­il­væg­um hags­mun­um.“

Og síðar seg­ir einnig:

„Aka­demískt frelsi í há­skóla­sam­fé­lagi fel­ur í sér rétt há­skóla­manna til að gagn­rýna stefnu og starfs­hætti stofn­un­ar sinn­ar. Það fel­ur í sér borg­ara­leg­an rétt til tján­ing­ar og þátt­töku í stjórn- og fé­lags­mál­um utan há­skól­ans, án þess að það bitni á ár­ang­urs­mati, fram­gangi eða starfs­kjör­um.“

Hót­an­ir og dóms­dags­spár

Há­skóla­kenn­ar­ar og ekki síst pró­fess­or­ar hafa í gegn­um tíðina sett sitt mark á þjóðmá­laum­ræðuna. Á stund­um ganga þeir hart fram í þjóðfé­lags­gagn­rýni og ekki falla skoðanir þeirra öll­um í geð. Fáum hef­ur komið til hug­ar að ganga á rétt þeirra til að setja fram skoðanir eða hug­mynd­ir, jafn­vel þegar hafðar eru uppi hót­an­ir eða dóms­dags­spár geri al­menn­ing­ur ekki eins og þeir telja rétt og skylt.

„Samþykki Alþingi ekki rík­is­ábyrgð á Ices­a­ve-lánið gæti skap­ast stríðsástand í efna­hags­líf­inu hér­lend­is, Ísland fengi hvergi fyr­ir­greiðslu, fyr­ir­tæki færu unn­vörp­um í þrot og við yrðum sett á sama stall í sam­fé­lagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea.“

Þetta sagði einn hag­fræðipró­fess­or Há­skóla Íslands þegar deilt var um Ices­a­ve-samn­ing. Starfs­bróðir hans tók und­ir og lýsti því yfir að Ísland yrði „svona Kúba norðurs­ins“, yrði samn­ing­ur­inn ekki samþykkt­ur. Ann­ar hafði burði og mann­dóm til að biðjast af­sök­un­ar á um­mæl­um sín­um – þau hafi verið van­hugsuð og kjána­leg. Hinn er lík­lega sama sinn­is – sann­færður um eig­in rök­semda­færslu og hót­an­ir um stríðsástand. Engu skipt­ir þótt sag­an sýni annað – allt annað.

Pró­fess­or í stjórn­mála­fræði lýsti því yfir í aðdrag­anda for­seta­kosn­inga 2016 að einn fram­bjóðand­inn – Davíð Odds­son – væri „mesti ógæfumaður Íslands­sög­unn­ar í póli­tík, Sturla Sig­hvats­son inclu­ded“.

Sturla [1199-1238] var einn helsti höfðingi Sturlunga. Hann var sagður yf­ir­gangs­sam­ur og vílaði ekki fyr­ir sér að ganga á alla gerða samn­inga ef það hentaði. Sturla gekk Nor­egs­kon­ungi á hönd og vann að því að koma Íslandi und­ir kon­ung. Aðal­geir Kristjáns­son, fyrr­ver­andi lands­bóka­vörður, skrifaði í Morg­un­blaðið í ág­úst árið 2000, að saga Sturlu hefði verið flétta hags­muna­samn­inga, vinslita og und­ir­mála. Há­skóla­kenn­ar­inn reyndi að af­saka sig síðar með því að um „stráks­skap“ hefði verið að ræða hjá manni sem er kom­inn á sjö­tugs­ald­ur­inn.

Skrímsli og nas­ist­ar

Í ág­úst 2009 ræddi pró­fess­or í stjórn­mála­fræðum við blaðamann og kallaði hóp sjálf­stæðismanna skrímsladeild. Í þeirri deild voru þeir sem töldu rangt að ís­lensk­ir skatt­greiðend­ur yrðu látn­ir axla skuld­ir Lands­bank­ans vegna Ices­a­ve-reikn­inga í Bretlandi og Hollandi. Í huga fræðimanns­ins var rétt að skil­greina and­stæðinga Ices­a­ve-samn­ing­anna sem ein­hvers­kon­ar óvætti eða skrímsli. Viðkom­andi hef­ur ekki legið und­ir ásök­un­um um hat­ursorðræðu.

Sitj­andi formaður eins stjórn­ar­and­stöðuflokks­ins hef­ur kallað fyrr­ver­andi flokks­bræður og -syst­ur svart­stakka – líkt þeim við fas­ista og of­beld­is­menn. Fyrr á þessu ári gekk hag­fræðipró­fess­or enn lengra og líkti sjálf­stæðismönn­um við nas­ista! Yf­ir­menn Há­skóla Íslands líta ekki á sam­lík­ingu við morðóða hunda sem hat­ursorðræðu.

Við Íslend­ing­ar höf­um verið sam­mála um að kon­ur og karl­ar skuli njóta jafns rétt­ar og að all­ir séu „jafn­ir fyr­ir lög­um og njóta mann­rétt­inda án til­lits til kyn­ferðis, trú­ar­bragða, skoðana, þjóðern­is­upp­runa, kynþátt­ar, litar­hátt­ar, efna­hags, ætt­ern­is og stöðu að öðru leyti“ eins og seg­ir í 65. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar. Ef til vill er nauðsyn­legt við end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­inn­ar að bæta við ákvæði um að all­ir skuli jafn­ir óháð skoðunum sín­um og lífsviðhorf­um. Svo er auðvitað hægt að setja á fót lög­gild­ing­ar­stofu skoðana sem get­ur út vott­orð fyr­ir lög­gilt­ar skoðanir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. október 2018