Borgarstjóri hafi manndóm til að axla ábyrgð

„Hér eru stjórnmálamenn sem hafa líka sofið á verðinum en eru einhvern vegin að reyna að finna leiðir til að benda á einhverja aðra. Þetta er það sem ég er að tala um. Þetta er það sem ég kann ekki við. Ég sakna þess að fólk axli ekki ábyrgð í þessu máli,“ sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag þar sem hún og Heiða Björg Hilmarsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar mættust til að ræða Braggamálið svokallaða.

„Það var ekki fylgt innkaupareglum við braggann. Það var ekki farið í útboð með þessa stóru kostnaðarliði. Ég held að það sé ein stór ástæða þess að verkið fór svona mikið fram úr áætlunum,“ sagði Hildur.

Hún sagði umræðuna vera þess háttar að það væri verið að leita að einhverjum öðrum en pólitískum fulltrúum til að hengja í málinu – að einhver annar væri ábyrgur.

„En hvar liggur pólitíska ábyrgðin? Hér eru auðvitað pólitískir fulltrúar sem eiga að fara yfir þetta allt saman. Inn í borgarráð fáum við allar fundargerðir innkauparáðs til að mynda og ég les þær og kynni mér þær áður en ég samþykki þær. Við samþykkjum þessar fundargerðir formlega,“ sagði Hildur.

Hún sagðist sakna þess hjá öllum flokkum í meirihlutanum sem mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili að því fólki blöskri ekki meira og það fólk taki ábyrgðina ekki meira í fangið. Hún segir þá aðila augljóslega hafa horft framhjá ýmsu.

Um þátt borgarstjóra, Dags B. Eggertssona, sagði hún: „Mér finnst allt í lagi að hann segði: „Ábyrgðin er mín. Ég ber ábyrgð á þessu. Ég er borgarstjóri.“ Ég geri enga sérstaka kröfu á að hann dragi sig í hlé. […] Það er ekki fortakslaus krafa af minni hálfu. En mér finnst eðlilegt að fólk og þegar þú ert kominn í stöðu sem þessa að vera borgarstjóri stærsta sveitarfélags á landinu að þá hafir þú manndóm í að axla ábyrgð þegar illa gengur.“

„Ég held að ástæðan fyrir því að Braggamálið er svona skýrt dæmi og „gott“ dæmi, ætla ég að segja innan gæsalappa því þetta er auðvitað agalegt dæmi, er að fjárhæðirnar eru auðvitað gífurlega háar, en við erum ekki að tala um 80 milljarða eins og með sjúkrahús. Við erum að tala um fjárhæðir sem fólk kannski tengir við. Við erum að tala um náðhús fyrir 47 milljónir og fólk hugsar kannski: „Já það er eins og íbúðin mín.“ Þannig að þetta eru svona fjárhæðir sem fólk tengir við,“ sagði Hildur.

Fréttin byggir á viðtali Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi við Hildi 14. október 2018. Viðtalið má í heild sinni finna hér.