Lægri skatta í Reykjavík

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Fasteignaskattar í Reykjavík munu hækka að meðaltali um tæp átta prósent árlega næstu fjögur árin, ef marka má fjárhagsáætlun borgarinnar. Skatttekjur borgarinnar á hvern Reykvíking munu slá ný met árlega á komandi árum. Hækkanir síðustu ára hafa að litlu leyti verið dregnar til baka. Þessar hækkanir eru langt umfram launaþróun, hagvöxt og tekjur fyrirtækja í borginni.

Fasteignaskattar fyrirtækja

Fasteignaskattar fyrirtækja hafa lengi verið í lögfestu hámarki í Reykjavík eða 1,65%. Þetta þýðir að árlega þarf að greiða 1,65 milljónir af 100 milljóna eign. Það gefur auga leið að slíka ofurskattheimta er afar íþyngjandi og skerðir samkeppnisstöðu fyrirtækja í borginni gagnvart fyrirtækjum í sveitarfélögum með lægri skattheimtu.

Í sáttmála meirihluta borgarstjórnar felst ákveðin viðurkenning á þessari ofurskattheimtu en þar er gert ráð fyrir að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,60% í lok kjörtímabils. Sé litið til fasteignamats fyrir árið 2019 hækkar atvinnuhúsnæði um heil 16,6%. Það gefur auga leið að nú þegar blikur eru á lofti í efnahagslífinu eru tekjur fyrirtækja almennt ekki að hækka svo mikið milli ára.

Ef lækkunin kæmi til framkvæmda á næsta ári myndu skattar borgarinnar á atvinnuhúsnæði, samkvæmt spá Greiningardeildar Arion banka, verða rúmlega 420 milljónum króna lægri en ella. Þrátt fyrir það yrðu þær tæplega 1,6 milljörðum króna hærri en árið áður vegna ofangreindrar hækkunar fasteignamats. Í sömu greiningu kemur fram að horfur eru á að fasteignaskattar geti jafnvel numið 70% kostnaðar leigufélaga á næsta ári. Ekki þarf að taka fram hvaða áhrif þetta hefði á leiguverð í borginni, en vandi á leigumarkaði hefur verið mikill síðustu árin.

Skattar borgarinnar þurfa að lækka strax

Gert er ráð fyrir að fasteignaskattar í Reykjavík hækki að meðaltali um tæp átta prósent til ársins 2022. Slíkar skattahækkanir tengjast á engan hátt afkomu fyrirtækja í borginni og gera hana minna aðlaðandi til búsetu eða reksturs.

Því mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja til í borgarstjórn að fasteignaskattar á fyrirtæki lækki strax á næsta ári um 0,05%. Nú er rétti tíminn, lækkum skatta í borginni íbúum og fyrirtækjum hennar til heilla.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 11. október 2018.