Að vera Sjálfstæðismaður

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

„Við sem höf­um skipað okk­ur und­ir gunn­fána Sjálf­stæðis­flokks­ins, geng­um ekki til liðs við flokk­inn vegna nafns­ins eða vegna þess að ein­hvern tíma í sögu hans hafi þar verið magnaðir for­ingj­ar við völd. Nei. Við erum frjáls­hyggju­menn, hægri menn, efa­semda­menn um mátt rík­is­valds­ins, staðfast­ir trú­menn þess að hver sé sinn­ar gæfu smiður, um leið og trú okk­ar krefst þess að hjálpa sam­borg­ur­um okk­ar. Við erum fólk sem tal­ar um borg­ara í stað þess að ræða um þegna. Við erum sann­færð um að leiðin til ham­ingj­unn­ar ligg­ur hvorki í gegn­um ríkið né auðæfi. Við erum fólk sem tel­ur að mæli­kv­arði á ná­ungakær­leika og hjálp­semi verði aldrei mæld­ur í því hvað við greiðum í skatta, held­ur hvernig og hvort við kom­um ná­granna okk­ar til hjálp­ar, án þess að um það sé sér­stak­lega getið í fjöl­miðlum. Sjálf­stæðis­menn eru því bara venju­leg­ir Íslend­ing­ar og þegar Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn byrj­ar að tala og fram­kvæma eins og venju­leg­ir Íslend­ing­ar, mun flokk­ur­inn – en fyrst og fremst þjóðin – njóta góðs af.“Þannig komst ég að orði í langri grein sem birt­ist í Þjóðmál­um sum­arið 2011 und­ir yf­ir­skrift­inni: „Mani­festo hægri manns“. Þar reyndi ég að færa rök fyr­ir því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn gæti end­ur­heimt stöðu sína sem kjöl­festa og leiðandi afl í ís­lensk­um stjórn­mál­um með því að end­ur­nýja traust og trúnað við launþega og at­vinnu­rek­end­ur. En for­senda þess er að kjörn­ir full­trú­ar flokks­ins viður­kenni að þeir sofnuðu á verðinum og að ríkið – báknið – hafi þan­ist út á vakt flokks­ins. Þeir verði að horf­ast í augu við þá staðreynd að sem stjórn­mála­flokk­ur gleymdi Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn úr hvaða jarðvegi stefna hans og hug­sjón­ir eru sprottn­ar. Al­menn­ir flokks­menn hafi ekki rifið upp ræt­urn­ar held­ur hafi flokk­ur­inn gleymt að rækta fortíð sína og sögu. Þess vegna taldi ég (og tel enn) að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn yrði að leita aft­ur til fortíðar um leið og sýn til framtíðar væri mótuð. Fara aft­ur til þess tíma þegar flokk­ur­inn var mál­svari launa­manna, varðmaður millistétt­ar­inn­ar og sér­stak­ur bar­áttumaður litlu og meðal­stóru fyr­ir­tækj­anna, sem skapa nýj­ung­ar og at­vinnu:

„Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn verður að tryggja að enn á ný verði hann brjóst­vörn allra borg­ara­legra afla lands­ins – regn­hlíf allra þeirra sem vilja tak­marka völd rík­is­ins, tryggja frelsi borg­ar­anna en um leið standa vörð um vel­ferðarríkið, án þess að rík­i­s­væða ná­ungakær­leik­ann. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á að lýsa því yfir að hann muni, í gegn­um þykkt og þunnt, vera gæslumaður menn­ing­ar og sögu lands­ins.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á að lýsa því yfir að hann sé flokk­ur at­vinnu­rek­enda, flokk­ur launa­manna, flokk­ur bænda, flokk­ur þeirra sem þurfa á sam­hjálp að halda, flokk­ur unga fólks­ins og þeirra sem eldri eru. En fyrst og fremst á Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að lýsa því yfir að hann sé flokk­ur millistétt­ar­inn­ar – hins venju­lega Íslend­ings.“

„Praktísk póli­tík“ og tekn­ó­krat­ar

Í Þjóðmála­grein­inni gagn­rýndi ég að aðgerðafræði tekn­ó­krata hefði náð að sýkja starf okk­ar Sjálf­stæðismanna. Í anda tekn­ó­krat­ism­ans var hug­mynda­fræði lögð til hliðar en þess í stað litið svo á að öll viðfangs­efni sam­fé­lags­ins ætti að leysa við skrif­borðið, í töflu­reikni og líkön­um. Og þótt við höf­um á síðustu árum náð að spyrna við fót­um gegn kerf­is­hugs­un­inni eig­um við langt í land. Ein stærsta áskor­un Sjálf­stæðis­flokks­ins er því enn sú sama og fyr­ir rúm­um sjö árum: Að segja tekn­ó­krat­ism­an­um stríð á hend­ur – segja hingað og ekki lengra. Sú bar­átta er hluti þess að flokk­ur­inn hugi að rót­un­um.Gagn­rýni mín 2011 var ekki ný af nál­inni. Sum­arið 2008 skrifaði ég grein í Þjóðmál um flokk í ólgu­sjó. Þar deildi ég á for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir að hafa ári áður gengið til sam­starfs við Sam­fylk­ing­una, sem þá var í sár­um eft­ir áfall í kosn­ing­um. Feigðin ein fylgi slíku banda­lagi. Í því krist­all­ist hvernig „praktísk póli­tík“ taki yfir hug­mynda­fræði og stefnu­festu. Áhyggj­ur mín­ar reynd­ust rétt­mæt­ar eins og síðar kom í ljós.

Góður ár­ang­ur en

Óhætt er að halda því fram að ár­ang­ur okk­ar Íslend­inga eft­ir fall bank­anna fyr­ir tíu árum hafi verið ótrú­leg­ur. Við höf­um á ör­fá­um árum náð góðum efna­hags­leg­um styrk.Frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók sæti í rík­is­stjórn árið 2013 hef­ur staða rík­is­sjóðs gjör­breyst. Í lok kom­andi árs verða skuld­ir rík­is­sjóðs 670 millj­örðum lægri en þegar þær voru hæst­ar árið 2012. Miðað við fjár­mála­áætl­un til 2023 verða skuld­irn­ar 790 millj­örðum lægri í lok áætl­un­ar en þegar þær voru hæst­ar. Þetta eru um níu millj­ón­ir króna á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu. Þrátt fyr­ir hrak­spá tókst að af­nema fjár­magns­höft­in og tryggja stöðug­leikafram­lög frá þrota­bú­um föllnu bank­anna.

Útgjöld til heil­brigðismála hafa verið stór­auk­in. Miðað við fjár­laga­frum­varp verða heil­brigðisút­gjöld liðlega 91 millj­arði hærri að raun­v­irði á næsta ári en 2013. Fram­lög til mál­efna eldri borg­ara og ör­yrkja verða 75 millj­örðum hærri. Hækk­un um 95% að raun­v­irði. Á sama tíma hafa al­menn vöru­gjöld verið felld niður og toll­ar á þúsund­um vöru­flokka verið aflagðir. Trygg­inga­gjald lækkað og tekju­skatt­ur ein­stak­linga ein­faldaður, þrep­um fækkað og lægsta skattþrepið lækkað.

Kaup­mátt­ur hef­ur aldrei verið meiri, at­vinnu­leysi lítið og verðlag hef­ur verið stöðugt. Lífs­kjör á Íslandi eru með þeim bestu sem þekkj­ast í heim­in­um.

En þrátt fyr­ir að í flestu hafi gengið vel hef­ur Sjálf­stæðis­flokkn­um ekki tek­ist að end­ur­heimta fyrri styrk. Við sem skip­um sveit kjör­inna full­trúa flokks­ins verðum að viður­kenna að okk­ur hef­ur ekki tek­ist að end­ur­nýja sam­bandið við marga kjós­end­ur. Fyr­ir því liggja marg­vís­leg­ar ástæður en í sam­töl­um við gamla sam­herja hef ég skynjað hversu von­svikn­ir marg­ir eru vegna þess hve seint geng­ur að hrinda stefnu­mál­um í fram­kvæmd. Rík­is­út­gjöld­in halda áfram að hækka ár eft­ir ár. Í hug­um margra stuðnings­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur virðing fyr­ir op­in­beru fé farið þverr­andi. Eft­ir­lits­stofn­an­irn­ar lifa góðu lífi og enn er stór hluti efna­hags­lífs­ins án sam­keppni. Rík­is­fyr­ir­tæki hafa í aukn­um mæli lagt til at­lögu við einka­fyr­ir­tæki. Einka­rekst­ur í heil­brigðisþjón­ustu er í vörn. Sér­eign­ar­stefn­an – einn horn­steinn hug­sjóna Sjálf­stæðis­flokks­ins – er líkt og af­gangs­stærð í dæg­urþrasi stjórn­mál­anna.

Mikið vatn hef­ur runnið til sjáv­ar frá því ég sá mig knú­inn til að skrifa grein­arn­ar tvær í Þjóðmál. Þá taldi ég nauðsyn­legt að huga að rót­um hug­mynda­fræðinn­ar en um leið yrðu kjörn­ir full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins að öðlast sjálfs­traust í mál­flutn­ingi og bar­áttu. Al­menn­ing­ur verði að skynja að þeir tali frá hjart­anu með frelsi ein­stak­lings­ins að leiðarljósi. Að ástríða og sann­fær­ing sé að baki orðum og at­höfn­um.

Af sam­töl­um síðustu miss­eri við fólk um allt land – bænd­ur, út­gerðar­menn, iðnaðar­menn, sjálf­stæða at­vinnu­rek­end­ur, kenn­ara og lækna – finn ég að marg­ir sakna þess að við sem höf­um tekið að okk­ur að berj­ast fyr­ir hug­sjón­um sjálf­stæðis­stefn­unn­ar á þingi, skul­um ekki tala af meiri ástríðu fyr­ir því sem við telj­um mik­il­væg­ast.

Eða eins og gam­all sjó­maður sagði við mig: „Það er allt í lagi að kann­ast við að vera Sjálf­stæðismaður.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. október 2018