Dýrasti bragginn í bænum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

For­gangs­röðun op­in­berra fjár­muna er eitt mik­il­væg­asta verk­efni kjör­inna full­trúa. Sam­spil þess að ákveða hvað skuli fjár­magnað úr sam­eig­in­leg­um sjóðum og vera verk­efni hins op­in­bera og þá hvaða verk­efni séu fremri öðrum er áskor­un sem all­ir ábyrg­ir stjórn­mála­menn standa fyr­ir. Því virðist þó öðru­vísi farið hjá Reykja­vík­ur­borg, sem hef­ur á und­an­förn­um árum ekki mikið horft til for­gangs­röðunar þegar kem­ur að fjár­mun­um borg­ar­búa. Það krist­all­ast einna skýr­ast í 257 millj­óna framúr­keyrslu þegar Reykja­vík­ur­borg ákvað að verja, eða eyða eft­ir því hvernig á það er litið, fjár­mun­um í end­ur­bygg­ingu á bragga og tengi­bygg­ing­um. Áætlað var að verja 158 millj­ón­um króna í verk­efnið en kostnaður­inn er nú þegar kom­inn í 415 millj­ón­ir – án þess að verk­efnið sé full­klárað.

Kostnaður bragg­ans er enn eitt dæmið um for­ystu­leysi í Reykja­vík. Eng­inn ein­stak­ling­ur, fjöl­skylda eða fyr­ir­tæki í einka­rekstri hefði þolað slík­an kostnað eða um­fram­keyrslu á fram­kvæmd. Það virðist þó gilda önn­ur lög­mál um hið op­in­bera þar sem alltaf er hægt að ganga lengra, seil­ast aðeins dýpra og virða að vett­ugi áætlan­ir og eðli­leg­an kostnað.

Eng­inn kostnaðarliður fór í útboð, það kem­ur lítið á óvart þegar rýnt er í sund­urliðun á kostnaðinum við verkið. Auðvelt er að reka í rogastans þegar ástands­skoðun ein og sér kost­ar 27 millj­ón­ir króna, eða um það bil jafn mikið og lít­il íbúð í einu af ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um borg­ar­inn­ar. Ef við gef­um okk­ur að tíma­gjald verk­fræðings sé um 18.600 kr. á klukku­stund (15 þús.kr. + vsk) þá má ætla að um 1.450 klst hafi farið í verk­efnið, eða rúm­ir átta mánuðir fyr­ir einn mann í fullri vinnu. Lík­lega hef­ur ekk­ert hús á land­inu farið í gegn­um jafn dýra ástands­skoðun.

Nú má einnig velta fyr­ir sér hvers vegna stjórn­völd í Reykja­vík ákváðu að fara í þetta gælu­verk­efni á meðan önn­ur og brýnni verk­efni bíða þess að kjörn­ir full­trú­ar sinni þeim. Þessi óráðsía kem­ur þó lítið á óvart og þó þetta ein­staka mál kom­ist í umræðuna er afar lík­legt að óskyn­sam­leg fjár­út­lát og framúr­keyrsla vegna hinna ýmsu verk­efna sé mun víðar en við átt­um okk­ur á. Við sáum að upp­bygg­ing Mat­hall­ar­inn­ar við Hlemm fór einnig langt fram úr áætl­un og svo virðist sem kostnaðar­vit­und þeirra sem ráða ríkj­um í Ráðhúsi Reykja­vík­ur sé lít­il sem eng­in.

Til að bæta gráu ofan á svart, þá hef­ur meiri­hlut­inn í Reykja­vík hafnað því að óháð rann­sókn verði gerð á mál­inu. Það eina sem hægt er að treysta á er að eng­inn inn­an borg­ar­kerf­is­ins mun bera ábyrgð á því sem und­an er gengið, hvorki kjörn­ir full­trú­ar né þeir emb­ætt­is­menn sem hafa það hlut­verk að láta fram­kvæmd­ir stand­ast áætl­un.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2018.