Árborg býður ungmennum á „Lof mér að falla“

Ungmennum í 9. og 10. bekk í grunnskólum sveitarfélagsins Árborgar verður boðið á kvikmyndina „Lof mér að falla“ sem sýnd er í kvikmyndahúsum um þessar mundir.

Þetta var samþykkt samhljóða að tillögu bæjarfulltrúa D-lista sjálfstæðismanna í bæjarráði Árborgar 4. október síðastliðinn – sjá hér.

Kvikmyndin er eftir Baldvin Z. og hefur fengið einróma lof gagnrýnenda, en hún byggir á sönnum atburðum um ógæfu táningsstúlku sem leiddist inn í heim fíkniefna.

Í tillögu bæjarfulltrúa D-listans segir m.a.: „Það er skoðun okkar að gott væri að hluti okkar framlags í vímuvörnum hjá sveitarfélaginu Árborg væri að bjóða 9. og 10. bekkingum grunnskóla Árborgar á kvikmyndina „Lof mér að falla“ sem sýnd er í Selfossbíói um þessar mundir. Boðið á myndina þyrfti að vinna í góðu samstarfi við foreldra og forráðamenn og skólayfirvöld svo vel takist til. Myndin er byggð á sönnum atburðum um hræðilega ógæfu meðal annars táningsstelpu sem gengur vel í skóla en missir fótanna í baráttunni við fíkniefnavandann. Myndin er gríðarlega áhrifarík og gæti verið innlegg í baráttunni við vímuvarnir.“

Á vefnum Klapptré um íslenskar kvikmyndir og sjónvarp segir að um 40.000 manns hafi séð myndina í kvikmyndahúsum fyrir lok septembermánaðar – sjá hér. Þar má einnig finna útdrátt úr áhugaverðu viðtali við höfund myndarinnar – sjá hér.