Fyrir börnin í borginni

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Biðlistavandi leikskólabarna er flestum kunnur. Borgin rekur fjölda leikskóla en annar þó ekki eftirspurn eftir leikskólarýmum. Það er mikilvægt að borgin geti boðið trausta og áreiðanlega daggæslu eða leikskólavist strax í kjölfar fæðingarorlofs. Það er fjölskyldufólki mikilvæg grunnþjónusta.

Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla en geta þó útvistað rekstrinum. Í Reykjavík eru sjálfstætt starfandi leikskólar 18 talsins og þá sækja tæp 1.200 börn. Ef þessara leikskóla nyti ekki við mætti hugsa sér ískyggilega stöðu á biðlistum borgarinnar. Sjálfstæðir leikskólar hafa svarað eftirspurn sem borgaryfirvöld gátu ekki mætt.

Í dag þiggja sjálfstæðir leikskólar skert rekstrarframlög frá borgarsjóði. Þannig er sjálfstætt starfandi leikskólum gert að innheimta hærri gjöld frá foreldrum, að öðrum kosti standa þeir ekki fjárhagslega jafnfætis borgarreknum leikskólum. Fyrirkomulagið skapar aðstöðumun milli barna, enda ekki öllum kleift að greiða með börnum sínum aukin gjöld.

Það er eðlilegur réttur barna að borgin leggi sömu upphæð opinbers fjár til uppeldis og menntunar þeirra – að tryggð séu jöfn opinber framlög með hverju barni inn í leikskóla borgarinnar. Með jöfnum framlögum mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri og jafnan aðgang að ólíkum valkostum, því gjaldskrár sjálfstæðra leikskóla myndu lækka og efnahagur foreldra yrði ekki lengur ákvarðandi forsenda við leikskólaval.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill skapa borg þar sem þú getur látið góða hugmynd verða að veruleika. Borg sem ryður veginn fyrir þá sem vilja sækja fram. Við viljum skapa fjölskylduvæna borg sem jafnframt fagnar framtakssemi og hugmyndaauðgi. Í Reykjavík hefur einkaframtakið svarað eftirspurn sem borgaryfirvöld gátu ekki mætt. Framtakinu bera að fagna og það ber að styðja. Sjálfstæðir leikskólar eru mikilvæg viðbót við skólaflóru borgarinnar. Þeir bjóða foreldrum fleiri valkosti um áherslur í uppeldi og menntun barna sinna. Við viljum tryggja öllum fjölskyldum þessa valkosti, óháð efnahag. Það er mikilvægt réttlætismál fyrir börnin í borginni.

Greining birtist á frettabladid.is 1. október.