Að fara að lögum eða fara ekki að lögum

Óli Björn Kárason, alþingismaður:

Hvað á að gera þegar rík­is­fyr­ir­tæki sem fær rúm­lega 4,1 millj­arð króna frá skattgreiðendum á þessu ári, fer ekki að lög­um? Er þá rétt að fjár­veit­inga­valdið – Alþingi – taki ákvörðun um að hækka fram­lög­in um 535 millj­ón­ir króna á kom­andi ári?

Í frum­varpi til fjár­laga 2019 er gengið út frá því að gert verði vel við Rík­is­út­varpið og að skatt­greiðend­ur láti meira af hendi rakna og tryggi rík­is­fyr­ir­tæk­inu rúm­lega 4,6 millj­arða króna árið 2019. Hækk­un­in er svipuð og það kost­ar að reka Mennta­skól­ann á Eg­ils­stöðum. Hækk­un­in er tölu­vert meiri en verja á í fram­kvæmda­áætl­un í mál­efn­um fatlaðs fólks og 110 millj­ón­um hærri en sú fjár­hæð sem Þjóðskjala­safn Íslands fær á kom­andi ári.

Fyr­ir­huguð hækk­un á rekstr­ar­fram­lög­um til Rík­is­út­varps­ins verður ör­ugg­lega samþykkt með yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta at­kvæða á Alþingi – enda eiga fáar stofn­an­ir eða rík­is­fyr­ir­tæki jafn­marga stuðnings­menn í þingsal og Rík­is­út­varpið. Við af­greiðslu fjár­laga munu þingmenn sjá í gegn­um fing­ur sér við Rík­is­út­varpið sem fer ekki eft­ir skýr­um lagafyrirmælum.

Ekki farið að lög­um

Í liðinni viku vakti ég at­hygli á því í þingsal að sam­kvæmt 4. grein laga um Rík­is­út­varpið væri rík­is­fyr­ir­tæk­inu skylt að aðskilja all­an sam­keppn­is­rekst­ur (s.s. sölu aug­lýs­inga og útleigu á mynd­veri, tækj­um og hús­næði) frá rekstri sem skil­greind­ur er sem fjölmiðlaþjónusta í al­mannaþágu og er rök­stuðning­ur fyr­ir því að lagður er á nefskatt­ur á flesta Íslend­inga og alla lögaðila.

Í 4. grein seg­ir meðal ann­ars: „Rík­is­út­varpið skal stofna og reka dótt­ur­fé­lög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyr­ir aðra starf­semi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“

Lög um Rík­is­út­varpið voru samþykkt í mars 2013. Rík­is­út­varp­inu var, með bráðabirgðaákvæði, veitt tíma­bund­in heim­ild til „að afla tekna með viðskipta­boðum, sölu og leigu á vör­um sem tengj­ast dag­skrárefni þess og ann­arri þjón­ustu sem fell­ur und­ir 4. gr. þar til dótt­ur­fé­lög hafa verið stofnuð og eru tek­in til starfa“.

Í des­em­ber 2015 voru samþykkt­ar breyt­ing­ar á lög­um um Rík­is­út­varpið og þar kem­ur skýrt fram að „4. gr. öðlast gildi 1. janú­ar 2018“. Með öðrum orðum: Tíma­bund­in heim­ild var felld úr gildi með liðlega tveggja ára fyr­ir­vara.

Rík­is­út­varpið hafði þannig tvö ár til að und­ir­búa stofn­un dótt­ur­fé­laga og gera aðrar þær ráðstaf­an­ir sem nauðsyn­leg­ar kunnu að vera, til að upp­fylla skýr fyr­ir­mæli laga. En ekk­ert var gert. Haldið var áfram eins og ekk­ert hefði í skorist og þó ekki al­veg. Rík­is­fyr­ir­tækið herti á sam­keppn­inni við sjálf­stæða fjöl­miðla – þurrkaði upp aug­lýs­inga­markaðinn í skjóli Heims­meist­ara­móts­ins í knatt­spyrnu. Og hef­ur nú snúið sér af hörku að því að keppa við einkaaðila á sviði tækjaleigu og út­leigu mynd­vers.

Þagn­ar­múr

Það hef­ur vakið at­hygli mína hversu fáir virðast hafa áhyggj­ur af því að rík­is­fyr­ir­tæki, sem er með yf­ir­burðastöðu á markaði, skuli ekki fylgja skýr­um fyr­ir­mæl­um laga. Engu er lík­ara en sér­stak­ur þagn­ar­múr sé reist­ur í hvert skipti sem bent er á eitt­hvað sem miður fer í rekstri Rík­is­út­varps­ins. Sam­tök iðnaðar­ins standa utan við múr þagn­ar­inn­ar og hafa sent stjórn rík­is­fyr­ir­tæk­is­ins bréf þar sem meðal ann­ars er bent á að for­senda heil­brigðis markaðar og sam­keppni sé að all­ir starfi eft­ir sömu leik­regl­um, þar á meðal rík­is­rek­in fyrirtæki. Þess vegna sé mik­il­vægt að í starf­semi rík­is­rek­inna fyr­ir­tækja sem að miklu eða öllu leyti eru fjár­mögnuð af rík­is­fé, sé greint á milli al­manna­hlut­verks þeirra og samkeppnis­rekst­urs.

Sam­kvæmt frétt Morg­un­blaðsins í liðinni viku benda Sam­tök iðnaðar­ins á að það sé skylda stjórn­ar Rík­is­út­varps­ins, að sjá til þess að skipu­lag og starf­semi sé í „réttu og góðu horfi“ og sú hóg­væra ósk sett fram að stjórn­in sjá til þess að koma starf­semi rík­is­fjöl­miðils­ins „þegar í stað í lög­mætt horf með því að setja all­an sam­keppn­is­rekst­ur í dótt­ur­fé­lög“:

Í frétt Morg­un­blaðsins er haft eft­ir út­varps­stjóra að verið sé að vinna að út­færslu þess­ar­ar laga­grein­ar [4. grein] í sam­starfi við mennta­málaráðuneytið: „Það eru ýmis laga­leg álitaefni sem finna þarf lausn á áður en næstu skref verða tek­in.“

Bráðabirgðaskjólið er farið

Sá er þetta skrif­ar hef­ur ekki hug­mynda­flug til að átta sig á því hvaða laga­legu álita­efna útvarps­stjóri vís­ar til. Ákvæði 4. grein­ar lag­anna eru skýr og ein­föld. En ef það er rétt að einhver álita­efni séu eða hafi verið uppi, þá hafði Rík­is­út­varpið (í sam­starfi við menntamálaráðuneytið) liðlega 24 mánuði til að finna „lausn“ á þeim áður en laga­ákvæðið tók gildi 1. janú­ar síðastliðinn, sam­kvæmt ákvörðun Alþing­is 2015. Skjólið sem Ríkisútvarpið hafði í bráðabirgðaákvæði, er ekki leng­ur fyr­ir hendi. Það er því rangt hjá útvarps­stjóra að halda því fram að nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag á rekstri Rík­is­út­varps­ins, sé heim­ilt – sé í sam­ræmi við lög.

Þegar ég gerði lög­leys­una í Efsta­leiti að um­tals­efni í þingsal lauk ég mál­inu mínu með eftirfar­andi:

„Núna þegar sept­em­ber er svo gott sem hálfnaður ból­ar ekk­ert á því að Rík­is­út­varpið taki ákvörðun um það að fara að lög­um. Svo get­um við velt því upp hér hvernig við ætl­um að styðja við og reyna að styrkja starf­semi frjálsra fjöl­miðla, sjálf­stæðra fjöl­miðla. Við mun­um ör­ugg­lega taka til umræðu til­lög­ur mennta­málaráðherra í þeim efn­um. En er ekki best að byrja þá á því, herra for­seti, að láta rík­is­stofn­an­ir fara al­mennt að lög­um?“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2018.