Þetta snýst allt um samkeppnishæfni

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ein frumskylda stjórnvalda á hverjum tíma er að verja samkeppnishæfni landsins. Tryggja að íslensk fyrirtæki og launafólk verði ekki undir í harðri alþjóðlegri samkeppni. Það er þess vegna sem ég hef hamrað aftur og aftur á mikilvægi þess að allt regluverk samfélagsins sé einfalt, gegnsætt og sanngjarnt. Þess vegna hef ég ítrekað bent á nauðsyn þess að þegar teknar eru ákvarðanir um skatta og gjöld sé hugað að samkeppnishæfni landsins. Og þess vegna hef ég lagt áherslu á að allt skipulag – allt frá heilbrigðiskerfinu, til raforkukerfisins, frá landbúnaði til sjávarútvegs, frá skipulagi peningamála til menntakerfisins – geti annaðhvort gefið okkur forskot eða dregið úr samkeppnishæfni lands og þjóðar.

Um það verður vart deilt að samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs hefur orðið lakari á undanförnum misserum. Um leið og íslenskur almenningur hefur notið sterkrar stöðu krónunnar hefur staða fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni versnað. Á sama tíma hefur launakostnaður hækkað verulega. En miklu fleiri þættir hafa áhrif á samkeppnisstöðuna en launakostnaður eða gengi krónunnar.

Umhverfi sem íslensk fyrirtæki og íslensk heimili búa við þegar kemur að vöxtum vegur þar þungt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að ríkisstjórnin ætli að vinna að „frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda“. Á vegum stjórnvalda hefur verið unnið að sérstakri Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi og verður hún lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið. Jafnframt hefur verið unnið að endurskoðun peningastefnunnar og þess regluverks sem gildir um Seðlabankann. Ég hef verið talsmaður þess að með nýjum lögum um Seðlabankann verði bankanum gert skylt að taka mið af því við vaxtaákvarðanir að vaxtamunur milli Íslands og helstu samkeppnislanda sé ekki óeðlilega hár. Með öðrum orðum: Seðlabankinn á ekki aðeins að horfa til verðbólgumarkmiða og gengisstöðugleika.

Vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda hefur í langan tíma verið óeðlilega mikill og hann dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og leggur byrðar á heimilin.

Hófsemd eða „getuleysi“

Ekki má gleyma umhverfinu sem íslenskum fyrirtækjum er búið þegar kemur að skattkerfinu. Samkeppnishæfni ræðst ekki síst af þeim ákvörðunum sem Alþingi tekur um álagningu skatta og gjalda.

Þegar gengið er til þeirra verka, á næstu vikum, að smíða umgjörð um innheimtu veiðigjalda – álagningu auðlindagjalda á sjávarútveg – verður að hafa það að leiðarljósi að skerða ekki samkeppnishæfni sjávarútvegsins sem er í harðri samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg um allan heim. Og það er vegna þessa sem við getum aldrei leyft okkur að leggja hærri virðisaukaskatt á ferðaþjónustu hér á landi en í helstu samkeppnislöndum okkar.

Hækkun skatta á einstaklinga skerðir einnig samkeppnisstöðu Íslands, ekki síst gagnvart þeim sem hafa alþjóðlega menntun; heilbrigðisstarfsfólki, verkfræðingum, iðnaðarmönnum og þannig má lengi telja. Það er ekki eftirsóknarvert fyrir vel menntaða sérfræðilækna að flytja heim til Íslands í óvinveitt skattaumhverfi. Ekki frekar en fyrir hjúkrunarfræðinga sem eru eftirsóttir um allan heim. Öflugt heilbrigðiskerfi verður ekki byggt upp án þessara starfsstétta. Fjárfesting í innviðum krefst verkfræðinga, tækni- og iðnaðarmanna. Vinnuafl er orðið óháð landamærum.

Því miður er skilningur á nauðsyn þess að gæta hófsemdar í álögum á fyrirtæki og einstaklinga takmarkaður. Við sem viljum koma böndum á skattagleði hins opinbera erum sakaðir um „getuleysi“ til að afla tekna. Hinir skattaglöðu setjast niður og reikna „nettóeftirgjöf tekna“ vegna þess að skattar eru ekki háir og þeir vilja og brigsla öðrum um að „afsala“ ríkissjóði tekjum með því að hækka ekki skatta eða aðrar álögur.

Orka, samkeppnishæfni og náttúruvernd

Ísland er eyland, langt frá öðrum mörkuðum. Flutningskostnaður og annað óhagræði sem fylgir fjarlægðinni gerir það að verkum að samkeppnishæfni landsins er lakari en ella. Þetta á jafnt við um útflutning sem innflutning. En það er líka margt sem spilar með okkur – við höfum forskot í ýmsu á aðrar þjóðir. Aðgangur að hreinni og hlutfallslega ódýrri orku eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og styrkir ímynd landsins sem perlu náttúru og hreinleika. Ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga er hrein orka.

Skipulag raforkumála er spurning um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þar með lífskjara almennings. Þess vegna getum við aldrei gengið fram með þeim hætti að við afsölum okkur fullum yfirráðum yfir orkuauðlindum – fallvötnunum og jarðvarma. Þegar Alþingi tekur til umræðu hvort rétt sé að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðju orkutilskipunarinnar – viðauka við EES-samninginn – vega þessir þættir þyngst í mínum huga.

Yfirráð yfir skipulagi auðlinda sem tryggja okkur hreina orku skipta ekki síður máli þegar við tökumst á við áskoranir í loftslagsmálum og náttúruvernd. Það vill oft gleymast að náttúruvernd getur verið ágætlega arðbær og skynsamleg frá sjónarhóli hagfræðinnar. Eitt besta dæmið um samþættingu náttúruverndar og arðbærrar nýtingar náttúruauðlindar er fiskveiðistjórnunarkerfið. Hreint vatn og heilnæm matvæli verða aldrei að fullu metin til fjár.

Metnaðarfull aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem kynnt var síðastliðinn mánudag, væri óframkvæmanleg ef við hefðum ekki aðgang að orkuauðlindum okkar og fulla sjálfstjórn um nýtingu þeirra.

Samkeppnishæfni um starfsfólk

Líkt og á flestum sviðum er skipulag heilbrigðisþjónustunnar ekki aðeins spurning um hvort okkur tekst að uppfylla loforð um að tryggja öllum nauðsynlega þjónustu óháð efnahag, heldur ekki síður spurning um samkeppnishæfni landsins um sérmenntað vinnuafl.

Fábreytni í rekstrarformi innan heilbrigðiskerfisins leiðir ekki aðeins til lakari og dýrari þjónustu heldur dregur hún úr samkeppnishæfni Íslands – ekki síst í að laða til landsins að nýju hæfileikaríkt starfsfólk, sem hefur sótt aukna menntun og þekkingu til annarra landa.

Það er ekki hlutverk mitt og getur ekki verið hlutverk annarra þingmanna að leggja steina í götur einkaframtaksins. Verkefnið er miklu fremur að fjölga valmöguleikum almennings og stuðla að hagkvæmri nýtingu sameiginlegra fjármuna um leið og öllum er tryggð örugg og góð heilbrigðisþjónusta. Hið sama á við í menntakerfinu.

Allt sem hér er sagt skiptir hins vegar litlu ef opið aðgengi að erlendum mörkuðum er ekki tryggt, samhliða eðlilegum og sanngjörnum aðgangi erlendra aðila að íslenskum markaði. EES-samningurinn, með öllum sínum kostum og göllum, hefur tryggt Íslandi öruggan og nauðsynlegan aðgang að mikilvægum mörkuðum. Gagnkvæmir fríverslunarsamningar við önnur ríki hafa reynst okkur vel og byggt undir bætt lífskjör.

Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur þurfa að vera vakandi við að gæta hagsmuna þjóðarinnar með náinni samvinnu við aðrar þjóðir. Markmiðið er að fjölga valkostum þjóðar en ekki fækka þeim.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. september 2018