Valfrelsi er lausnin

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Enn einu sinni ber­ast frétt­ir af fjölda barna sem ekki fá pláss á leik­skóla í haust hjá Reykja­vík­ur­borg. Að þessu sinni eru það 128 börn sem ekki fengu leik­skóla­pláss þrátt fyr­ir að hafa fengið lof­orð um pláss. Flest­ir for­eldr­ar þeirra barna höfðu þó gert ráðstaf­an­ir, bæði varðandi vinnu og tekið börn frá dag­for­eldr­um hafi þau verið kom­in þangað. Þessu til viðbót­ar eru enn fleiri á biðlista sem ekki hafa enn fengið lof­orð um pláss.

Þann 12. maí, nokkr­um dög­um fyr­ir kosn­ing­ar, skrifaði Skúli Helga­son, formaður skóla- og frí­stundaráðs, grein á vef Sam­fylk­ing­ar­inn­ar þar sem hann setti út á gagn­rýni sjálf­stæðismanna á leik­skóla­mál borg­ar­inn­ar. Skúli sagði í grein sinni að inn­rit­un á leik­skóla borg­ar­inn­ar gengi vel og allt stefndi í að öll börn frá 18 mánaða aldri fengju boð um að kom­ast inn á leik­skóla borg­ar­inn­ar í haust. Nú hef­ur komið á dag­inn að ekk­ert var að marka þessi orð.

Vand­inn er mik­ill þó að borg­ar­full­trú­ar í meiri­hlut­an­um kepp­ist við að segja að segja aðra sögu. Marg­ir for­eldr­ar þurfa að taka ákvörðun um hvort þeirra eigi að vera leng­ur heima og þannig frá vinnu­markaði, á meðan aðrir fá pláss hjá dag­for­eldr­um sem að sama skapi fel­ur í sér meiri kostnað fyr­ir for­eldra.

Ólíkt öðrum sveit­ar­fé­lög­um greiðir Reykja­vík­ur­borg minna með hverju barni til sjálf­stætt starf­andi leik­skóla. Með því er val­frelsi skert. Í stuttu máli er það stefna Reykja­vík­ur­borg­ar að ein­göngu skuli starfa borg­ar­rekn­ir leik­skól­ar, þó að vitað sé að þeir geti ekki sinnt þeim fjölda sem þarf pláss. Það er sér­kenni­leg for­gangs­röðun hjá borg­inni að leggja alla áherslu á borg­ar­rekna leik­skóla sem anna ekki eft­ir­spurn og ætl­ast til þess að for­eldr­ar sætti sig við það að þetta sé ör­lítið betra en í fyrra

Nú kjósa einnig sum­ir for­eldr­ar að hafa börn­in sín hjá dag­for­eldr­um leng­ur. Fyr­ir sum börn er það hent­ugra og fyr­ir aðra veit­ir það einnig meiri stöðug­leika en margra mánaða óvissa með leik­skóla­pláss. Það er því sér­kenni­legt að borg­in grípi ekki til aðgerða til að auðvelda for­eldr­um að nota dag­for­eldra sem úrræði með því að bjóða upp á sömu niður­greiðslu til dag­for­eldra.

Allt fram­an­greint minn­ir okk­ur á það að stjórn­mála­menn þurfa að bjóða fólki upp á val þar sem í boði eru marg­ar lausn­ir. Öll vilj­um við hafa sem mest um það að segja hvernig við hög­um lífi okk­ar. Með því að jafna tæki­færi leik­skóla og dag­for­eldra er bæði verið að stuðla að jafn­ræði og efla rekstr­ar­grund­völl dag­for­eldra til að efla þjón­ustu sína og koma til móts við þá eft­ir­spurn sem er eft­ir dag­vist­un. Lausn­in við vand­an­um er aukið val­frelsi, ekki varðstaða um úr­elta stjórn­mála­stefnu vinstri­flokk­anna sem alltaf bitn­ar á íbú­um borg­ar­inn­ar – og í þessu til­viki börn­um þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst 2018.