Börnin 128

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Í haust munu 128 börn í Reykjavík ekki fá þau leikskólapláss sem hafði verið lofað. Þá á eftir að ráða starfsfólk í 84 stöðugildi. Ástandið er vissulega betra en á síðasta ári og því ber að fagna. Staðreyndin er þó sú að um 9% barna sem var lofað plássi komast ekki að. Það er óásættanleg staða. Líklega dugir foreldrum þessara barna skammt að vita að staðan hafi batnað.

Foreldrar munu því þurfa að gera aðrar ráðstafanir, með hjálp vina og vandamanna eða hreinlega með því að fresta endurkomu á vinnumarkað. Hluti þessara barna er hjá dagforeldrum eða í ungbarnaleikskólum ef þau eru það lánsöm að halda plássum sínum, sem losna þá ekki fyrir önnur börn sem bíða eftir að komast að. Foreldrar þeirra þurfa þá einnig að gera ráðstafanir, mögulega að vera heima við lengur en til stóð. Í mörgum tilfellum þýðir þetta umtalsvert tekjutap eða kostnað við dýrari úrræði. Staðan bitnar því miður helst á tekjulægri foreldrum.

Jafnréttismál

Rannsóknir sýna að barneignir hafa jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð á laun kvenna. Mæður barna eru mun lengur frá vinnumarkaði en karlar eftir barneignir. Konur eru því, enn sem komið er, mun líklegri til að vera heima með börnin komist þau ekki að í dagvistun. Lengri fjarvera frá vinnumarkaði hefur einnig áhrif á starfsframa. Skilvirkt kerfi dagvistunar er því ekki síst jafnréttismál. Það er því mikilvægur þáttur í að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði að Reykvíkingar hafi greiðan og tímanlegan aðgang að dagvistun.

Þá má ekki gleyma hversu mikilvægt það er fyrir börnin sjálf að komast tímanlega í leikskóla, fyrsta skólastigið, að fá þá örvun sem felst í því að eyða deginum með fagfólki, hafa aðgang að góðum útisvæðum og vera innan um börn á sama aldri.

Árangur hefur náðst en það þarf að gera miklu betur. Það gengur ekki að 9% barna fái ekki leikskólaplássin sín, að líf þessara fjölskyldna og aðstandenda sé í ákveðnu uppnámi. Að líf þeirra sem bíða eftir plássum hjá dagforeldrum og í ungbarnaleikskólum riðlist líka með þeim afleiðingum, meðal annars, að tækifæri kvenna á vinnumarkaði skerðist.

Þetta er langtímaverkefni sem þarf samt að vinnast hratt og það þarf að halda áfram vel á spöðunum. Við megum aldrei sofa á verðinum.