Þörf á víðtækari og öflugri aðgerðum

Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Aukafundur velferðarráðs, sem haldinn var í dag að frumkvæði stjórnarandstöðuflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur skilaði ekki þeim árangri sem vænst var til enda var alls átta tillögum stjórnarandstöðuflokkanna vísað til stýrihópa, skrifstofu velferðarsviðs eða þeim frestað.

„Til að mynda veldur það miklum vonbrigðum að ekki var unnt að samþykkja tillögu stjórnarandstöðuflokkanna um dagskýli fyrir heimilislausa sem mikil þörf er fyrir,“ segir Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkur.

Egill segir ljóst að núverandi meirihluti sé fyrst núna að horfast í augu við og viðurkenna vanda heimilislausra. Þá segir hann það enn fremur ljóst að þær tillögur meirihlutans sem lagðar voru fram í dag séu á algjörum byrjunarreit eins og tillagan um neyðarskýli fyrir unga karla beri með sér. Þannig sé ekki búið að útfæra tillöguna betur en svo að ekki hefur verið ákveðið hvar skýlið skuli staðsett eða hvenær því verður komið upp.

„Samfylkingin hefur nú verið við stjórn Reykjavíkurborgar óslitið í 8 ár og þess vegna kemur á óvart hversu lítið hefur verið gert til að undirbúa aðgerðir í málefnum heimilislausra. Rétt er að geta þess að ekki voru nema 5 leigu- og búseturéttaríbúðir byggðar á síðasta kjörtímabili,“ segir Egill Þór.

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn telur að fara þurfi í mun öflugri og víðtækari aðgerðir til að leysa það neyðarástand sem ríkir í húsnæðismálum. Það er ekki góðs viti að tillögum sé vísað annað eða frestað. Það þarf að hefjast strax handa við að leysa vandann t.d. að koma upp færanlegu húsnæði eða smáhýsum fyrir þá sem eru í brýnustu þörf og eru heimilislausir. Tillögu þess efnis var vísað í stýrihóp á fundinum í dag sem er ekki til þess fallið að flýta fyrir afgreiðslu málsins. Jafnframt þurfi að koma með heildarlausnir til frambúðar með því að útrýma lóðaskorti og úthluta lóðum á viðráðanlegu verði til að auðvelda fólki að koma sér þaki yfir höfuðið.

Egill Þór segir þær tillögur sem ræddar voru á fundinum ekki taka á heildarvanda heimilislausra.

„Þær aðgerðir sem boðaðar voru á fundinum í dag eru þar af leiðandi aðeins lítill plástur á stórt samfélagslegt vandamál sem hefur vaxið mikið síðustu ár,“ segir Egill Þór og bætir við: „Það þarf að bregðast strax við en það er farið að styttast í veturinn. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið enda fóru stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn fram á aukafund í velferðarráði fyrr í sumar og vildum við nýta tímann til að finna lausnir fyrir heimilislausa.“

„Það eru vonbrigði að ekki voru allar þær tillögur til lausnar vandans sem lagðar voru fram af stjórnarandstöðuflokkunum á aukafundi borgarráðs í síðasta mánuði teknar fyrir á fundi velferðarráðs í dag,“ segir Egill Þór enn fremur.