Sofandi samþykkir ekkert

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Þannig hljóm­ar fyr­ir­sögn aug­lýs­ing­ar frá lög­regl­unni í Vest­manna­eyj­um, ÍBV, Bleika fíls­ins og öðrum sam­starfsaðilum fyr­ir versl­un­ar­manna­helg­ina sem nú er að ganga í garð. Versl­un­ar­manna­helg­in er ein mesta ferðahelgi árs­ins, Íslend­ing­ar flykkj­ast um allt land, flest­ir með felli­hýsi eða tjald og góða skapið í eft­ir­dragi. En þrátt fyr­ir að stærst­ur hluti Íslend­inga skemmti sér kon­ung­lega, bæði fal­lega og kurt­eis­lega, virðast alltaf vera ein­hverj­ir sem ekki geta virt mörk í sam­skipt­um, beita of­beldi og valda var­an­legu tjóni á lífi ein­stak­linga eft­ir helg­ina.

Skila­boðin sem koma frá Vest­manna­eyj­um eru skýr og fræðandi og gefa fólki tæki­færi til að opna á umræðu um nauðgan­ir og hvar mörk­in liggja. Enn eru of marg­ir sem átta sig ekki á því hvar lín­an er dreg­in og að sam­ræði við sof­andi fólk er ekki kyn­líf held­ur refsi­verð nauðgun. Allt að helm­ing­ur til­kynntra nauðgana er brot gegn rænu­lausu fólki sem ekki get­ur spornað við verknaðinum. Hvar sem við erum er fátt mik­il­væg­ara en að fólk virði sam­skipta­regl­ur svo að við get­um skemmt okk­ur sam­an. Þær mega ekki falla úr gildi þegar inn í tjaldið er komið frek­ar en ann­ars staðar.

Druslu­gang­an var geng­in víðs veg­ar um landið fyr­ir ör­fá­um dög­um. Druslu­gang­an er ein­fald­lega sam­stöðu- og mót­mæla­ganga sem hef­ur það mark­mið að upp­ræta for­dóma varðandi klæðaburð kvenna og ástand þeirra sem verða fyr­ir kyn­ferðisof­beldi en ekki síst til að minna á að gerend­ur eru þeir sem bera fulla ábyrgð á kyn­ferðisof­beldi. Þar finna þolend­ur fyr­ir mikl­um stuðningi og sam­stöðu þúsunda manna gegn hvers kyns of­beldi. Fjöldi fólks á enn erfitt með að skilja mik­il­vægi göng­unn­ar, kannski fyrst og fremst því að orðið drusla er al­mennt nei­kvætt og ekki talið orð sem þú átt að nota um sjálfa þig. En það er ein­mitt sá hugs­un­ar­hátt­ur sem er verið að reyna upp­ræta, að brand­ar­inn um að það sé ekki hægt að nauðga lauslátri konu (druslu) hætti að vera fynd­inn og að við sjá­um öll sem eitt að það er á ábyrgð ger­and­ans að virða ekki mörk, að beita of­beldi og nauðga.

Við skul­um fara inn í helg­ina með hug­ann við hvað eru eðli­leg sam­skipti og hvar mörk­in liggja. Við eig­um að þora að ræða þessa hluti, vera vak­andi yfir vel­ferð og ástandi hvert ann­ars og um­fram allt bera ábyrgð á hegðun okk­ar. All­ir þurfa að vita hvar mörk­in liggja og það á að vera al­veg krist­al­tært að eng­inn samþykk­ir neitt sof­andi.

Lífið er ynd­is­legt og við eig­um að geta fylgst að í því ferðalagi á meðan hjört­un slá í takt. Við skul­um vinna sam­an í því að tryggja að svo verði áfram.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. ágúst 2018.