„Breytingarnar munu flýta fyrir þinglýsingu skjala enda verður ferlið nánast sjálfkrafa þegar tölvukerfið verður komið í gagnið. Þannig náum við að draga verulega úr umstangi fólks í kringum þinglýsingar og létta á vinnuálagi hjá sýslumannsembættunum,“ sagði Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í samtali við Fréttablaðið í dag en hún mun leggja fram frumvarp í haust sem gerir fólki kleift að senda inn skjöl til þinglýsingar með rafrænum hætti. Þannig verður biðin eftir þinglýsingu stytt niður í jafnvel nokkur sekúndubrot.
Hljóti frumvarpið brautargengi í vetur geta fasteignasalar og fjármálastofnanir fengið aðgang að tölvukerfi sem verður gangsett í mars. Þar verður hægt að senda inn kaupsamninga, veðleyfi og veðskuldabréf með rafrænu auðkenni. Hönnun kerfisins er langt á veg komin en frumvarpið sjálft er tilbúið til framlagningar.
Sigríður segir að atvinnulífið hafi beðið lengi eftir rafrænum þinglýsingum en málið var fyrst tekið til skoðunar árið 2010: „Þetta mál var búið að velkjast um alltof lengi í stjórnkerfinu að mínu mati og ég lagði því áherslu á að koma því í gegn.“
Fréttina í heild sinni má lesa hér.