Hálfrar aldar bann við útbreiðslu kjarnavopna

Síðan kalda stríðið var í há­marki hef­ur kjarna­vopn­um í heim­in­um fækkað úr 70.000 í tæp­lega 15.000. Um langt ára­bil hef­ur út­breiðsla kjarna­vopna verið nán­ast stopp. Friðsam­leg nýt­ing kjarn­orku hef­ur vaxið og nær nú til allra heims­hluta.

Í þess­ari þróun hef­ur samn­ing­ur­inn um bann við út­breiðslu kjarna­vopna (NPT) gegnt lyk­il­hlut­verki. Í gær, hinn 1. júlí, voru fimm­tíu ár liðin frá því að samn­ing­ur­inn var und­ir­ritaður og gerði Ísland það einnig þann merka dag.

Þessi samn­ing­ur er sann­kallað stór­virki en hann bygg­ist á þrem­ur meg­in­mark­miðum: fækk­un kjarna­vopna, stöðvun á út­breiðslu kjarna­vopna og að tryggja rétt ríkja til friðsam­legr­ar nýt­ing­ar kjarn­orku. Öll þessi mark­mið hafa verið upp­fyllt að veru­legu leyti. Í dag á 191 ríki aðild að samn­ingn­um. Þó er sá mein­bug­ur þar á að nokk­ur ríki sem eiga kjarna­vopn standa utan hans: Ind­land, Pak­ist­an, Ísra­el og Norður-Kórea.

Tíma­mót­in minna einnig á að mikið verk er óunnið við að fram­kvæma samn­ing­inn um bann við út­breiðslu kjarna­vopna, auk þess sem teikn eru á lofti um að það kerfi alþjóðlegra reglna sem sam­skipti ríkja byggj­ast á eigi und­ir högg að sækja. Gild­ir þetta bæði á sviði ör­ygg­is­mála og viðskipta. Því þarf að standa vörð um mik­il­væga af­vopn­un­ar­samn­inga eins og NPT og samn­ing­inn um bann við efna­vopn­um. Í þessu sam­hengi má til­greina þrjú aðkallandi úr­lausn­ar­efni, sem kunna að reyna á samn­ing­inn.

Fyrst er að nefna kjarna­vopn Norður-Kór­eu. Þar birt­ist ógn­in af beit­ingu kjarna­vopna í sinni skýr­ustu mynd þar sem sam­an fara óá­byrgt ein­ræði og ógn­ar­vopn. Niðurstaða leiðtoga­fund­ar Norður-Kór­eu og Banda­ríkj­anna í nýliðnum mánuði vek­ur von­ir en jafn­framt er rétt að hafa hug­fast að fyr­ir­heit­in sem gef­in voru í fyrri samn­ing­um ríkj­anna um kjarna­vopn hafa ekki ræst.

Þá er það sam­komu­lagið um kjarn­orku­áætlun Írans frá 2015, sem miðar að því að koma í veg fyr­ir að Íran fram­leiði kjarna­vopn. Þetta ramma­sam­komu­lag Írana við fasta­ríki ör­ygg­is­ráðs Sam­einuðu þjóðanna, Þýska­land og Evr­ópu­sam­bandið hef­ur veikst mjög eft­ir brott­hvarf Banda­ríkj­anna.

Loks rík­ir óvissa um framtíð tveggja af­vopn­un­ar­samn­inga Rúss­lands og Banda­ríkj­anna: samn­ings­ins um lang­dræg kjarna­vopn (START) og samn­ings­ins um meðaldræg kjarna­vopn (INF).

Ísland mun áfram leggja sitt af mörk­um til fram­gangs NPT-samn­ings­ins í sam­vinnu við hinar nor­rænu þjóðirn­ar og banda­lags­ríki í Atlants­hafs­banda­lag­inu, og í sam­ræmi við þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland. End­ur­skoðun­ar­ráðstefna NPT sem hald­in verður árið 2020 verður sér­stak­lega mik­il­væg í að tryggja framtíð samn­ings­ins og áfram­hald­andi fram­fylgd hans. Þannig fær­umst við nær loka­mark­miði samn­ings­ins, kjarna­vopna­laus­um heimi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí.