D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra og J-listi Jákvæðs samfélags taka höndurm saman um það verkefni að stýra sameiginlegu sveitarfélagi Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs kjörtímabilið 2018-2022. Samkomulag þess efnis var undirritað í gær af bæjarfulltrúum beggja framboðslista.
Sameinað sveitarfélag Sandgerðis og Garðs er 17. stærsta sveitarfélag landsins og hluti af Suðurkjördæmi. Þar bjuggu 3.374 íbúar þann 1. janúar 2018. Hvor listi um sig fékk 3 bæjarfulltrúa kjörna og samanstendur meirihlutinn því af 6 bæjarfulltrúum af 9.
Samstarfið mun byggja til jafns á stefnuskrám beggja framboðslista þar sem áhersla verður lögð á að vel takist til við það verkefni að sameina tvö rótgróin samfélög í eitt. Til að það takist verður áhersla lögð á gott samstarf kjörinna fulltrúa, starfsmanna og bæjarbúa.
Einar Jón Pálsson, oddviti D-listans, verður forseti bæjarstjórnar og Ólafur Þór Ólafsson, oddviti J-listans, verður formaður bæjarráðs. Staða bæjarstjóra verður auglýst og ráðið í hana út frá faglegum forsendum.
Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar fer fram miðvikudaginn 20. júní 2018.
Nánar má lesa um bæjarfulltrúa D-listans hér.