Sjálfstæðisflokkurinn stendur að meirihluta í Norðurþingi

Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð og óháðir og Samfylkingin og annað félagshyggjufólk hafa gert með sér samkomulag um meirihlutasamstarf í sveitarstjórn Norðurþings kjörtímabilið 2018-2022.

Norðurþing er 19. stærsta sveitarfélag landsins og hluti af Norðausturkjördæmi. Þar bjuggu 3.234 manns þann 1. janúar 2018. Aðal þéttbýlisstaður sveitarfélagsins er Húsavík, en aðrir þéttbýlisstaðir innan sveitarfélagsins eru Raufarhöfn og Kópasker.

Kristján Þór Magnússon, oddviti D-listans, verður áfram sveitarstjóri Norðurþings, en tillögur um skipan í önnur embætti verða lagðar fram á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar 19. júní nk.

Samkomulag flokkanna byggir á málefnasamsningi sem byggir á stefnuskrám framboðanna við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Unnið verður að heilindum í samstarfinu með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Fjölskyldan og þjónsta við hana verða sett í fyrsta sæti.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings

Áhersla verður lögð á uppbyggingu svæða og samverustaða sem ýta undir útivist og aukna samveru íbúa Norðurþings. Unnið verður markvisst með aðferðafræði Heilsueflandi samfélags þar sem m.a. verður stutt betur við geðræktarmál, möguleikum til tómstundaiðkunar fjölgað og íþróttafélögum gert enn hærra undir höfði.

Ætlunin er að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki þannig að Norðurþing bjóði upp á enn eftirsóknarverðara umhverfi til búsetu og reksturs fyrirtækja. Áfram verður þó haldið þétt utan um rekstur sveitarfélagins og vandað verður til verka við áætlanagerð og eftirfylgni áætlana.

Hér má sjá nánar um sveitarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.