Samstarf við Vinstri græna í Mosfellsbæ endurnýjað

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa endurnýjað málefnasamning um meirihlutasamstarf í bæjarstjórn Mosfellsbæjar á komandi kjörtímabili. Samningurinn var undirritaður sl. þriðjudag.

Mosfellsbær er 7. stærsta sveitarfélag landsins og er hluti af Suðvesturkjördæmi. Þar bjuggu 10.566 íbúar þann 1. janúar 2018. D-listinn fékk fjóra fulltrúa kjörna í bæjarstjórn og V-listi fékk einn fulltrúa, en bæjarstjórnin er skipuð alls níu bæj­ar­full­trú­um. Meirihlutasamstarf listanna hófst árið 2006.

„Með okk­ar góðu gildi að leiðarljósi, virðingu – já­kvæðni – fram­sækni og um­hyggju eru okk­ur all­ir veg­ir fær­ir. D- og V- listi hafa verið við stjórn­völ­inn und­an­far­in 12 ár og á þeim tíma hef­ur sam­fé­lagið eflst og þjón­ust­an tekið stakka­skipt­um. Við ætl­um að halda áfram á sömu braut, gera enn bet­ur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mos­fells­bæ,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í tilkynningu frá framboðunum.

Oddviti vinstri grænna segir að í samningnum sé talað skýrt í öllum málaflokkum. Að Mosfellingum fjölgi ört og að bæjarfélagið sé reiðubúið að takast á við verkefnin sem stækki með hverju árinu.

Hér má finna ítarlega frétt í Mosfellingi um samstarfið og nánari upplýsingar um bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ má finna hér.

Málefnasamninginn í heild sinni má finna hér.