Bætt framsetning á álagningu opinberra gjalda

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á blaðamannafundi í gær breytingar á framsetningu álagningar opinberra gjalda. Álagningin verður birt á morgun og markmiðið með breytingunum er að gera upplýsingar aðgengilegri og notendavænni.

Með þessu á að vera auðveldara að nálgast framsetninguna álagningarinnar á stafrænan máta, hlutfall skatta af skattstofni og skiptingu skattgreiðslna á milli sveitarfélags og ríkissjóðs.

Fram kemur í frétt á vef fjármálaráðuneytisins að verkefnið sé unnið af ríkisskattstjóra að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra.

Ráðherra kynnti einnig að frá og með árinu 2020 verði starfræn samskipti orðin meginsamskiptaleið hins opinbera við fyrirtæki og almenning. Með því sparast um 500 milljónir króna á ári við að hætta að senda bréfpóst.

„Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að koma á stafrænni þjónustugátt fyrir hið opinbera. Unnið verður að því að styrkja island.is og þróa til að það þjóni til fulls þeim tilgangi sem ætlast er til að stafræn þjónusta hins opinbera uppfylli. Hluti af stafrænu þjónustugáttinni er pósthólf á island.is sem verið er að endurbæta með það að markmiði að einfalda samskipti fólks og fyrirtækja,“ segir á vef ráðuneytisins.

Þar geti opinberir aðilar sameinast um að birta skjöl sem annars hefðu verið send í bréfpósti.

„Ríkisskattstjóri hefur í tengslum við vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins við pósthólfið ákveðið að niðurstaða álagningar opinberra gjalda á einstaklinga verði aðgengileg í gegnum pósthólfið, sem og á þjónustusíðu RSK, nú í lok maí,“ segir á vefsvæði ráðuneytisins.

Hér má finna nánari upplýsingar um málið á vef fjármálaráðuneytisins.