57 konur af D-listum í sveitarstjórnum

Um helgina voru 57 konur kjörnar í sveitarstjórnir landsins af listum Sjálfstæðisflokksins. Alls fengu sjálfstæðismenn kjörna 118 aðalmenn í sveitarstjórnir landsins, svo að hlutfall kvenna er ríflega 48% fulltrúanna. Það hækkaði um 2,5 prósentustig frá síðasta kjörtímabili og hefur aldrei verið hærra.

Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi er nú hærra en nokkru sinni fyrr .
Á landsvísu voru 236 konur kjörnar í allar sveitarstjórnir landsins, flestar á listum utan hins hefðbundna flokkakerfis eða í óhlutbundinni kosningu, en sem fyrr segir eru 57 þeirra á listum Sjálfstæðisflokksins, hartnær fjórðungur. Enginn annar flokkur kemst í hálfkvisti við það.

Ef aðeins er litið til þeirra 34 sveitarfélaga, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram lista, voru þar alls kjörnar 142 konur, þar af 57 af listum Sjálfstæðisflokksins, sem fyrr segir, eða 40% kvenna í þeim sveitarstjórnum.

47% allra sveitarstjórnamanna í landinu eru nú konur, en hlutfallið í sveitarstjórnahóp Sjálfstæðisflokksins er ívið hærra eða 48%. Þannig hefur hlutur kvenna aukist frá síðasta kjörtímabili þegar 44% sveitarstjórnafulltrúa voru konur, sem þá var einnig hlutfallið meðal sveitarstjórnamanna Sjálfstæðisflokksins.