Náðum hreinum meirihluta í 9 sveitarfélögum

Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram í 34 sveitarfélögum af 72 í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Meðaltalsfylgi flokksins í þessum 34 sveitarfélögum nú er 39,68%. Sé fylgi flokksins hinsvegar reiknað út frá samanlögðum atkvæðum flokksins sem hlutfall af öllum greiddum og gildum atkvæðum í þessum 34 sveitarfélögum þá fékk flokkurinn 34,5% atkvæða árið 2018 til samanburðar við 34,4% árið 2014. Flokkurinn bætti því lítillega við fylgi á milli kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut alls 118 fulltrúa kjörna í þessum sveitarfélögum, en fékk 120 fulltrúar kjörna í kosningunum 2014.

Flokkurinn hélt hreinum meirihlutum í Garðabæ, á Seltjarnarnesi, í Rangárþingi ytra, í Hveragerði, í Bolungarvík og í Snæfellsbæ. Þá náði flokkurinn hreinum meirihluta í Ölfusi, í Grundarfirði og í Skaftárhreppi. Flokkurinn er því með hreinan meirihluta í níu sveitarfélögum af þeim 34 þar sem hann bauð fram lista.

Í Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, á Dalvík, Fljótsdalshéraði og í Skagafirði héldu meirihlutar velli sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að á síðasta kjörtímabili, eða í sex sveitarfélögum af 34.

Flokkurinn orðinn langstærstur í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig töluverðu fylgi í Reykjavík, þar sem flokkurinn fékk rúmlega 30% atkvæða og er langstærsti flokkurinn í borgarstjórn með átta borgarfulltrúa. En þar féll einnig núverandi meirihluti vinstri manna.

Í Rangárþingi eystra bætti flokkurinn einnig umtalsverðu fylgi við sig, fékk lang mest fylgi og bætti við sig manni. Þar fékk D-listinn 3 menn kjörna og felldi þar með meirihluta B-lista framsóknarmanna. Í Fjallabyggð var flokkurinn í meirihlutasamstarfi við S-lista jafnaðarmanna en þeir buðu ekki fram aftur. Flokkurinn bætti þó við sig rúmum 15% og fékk þrjá menn kjörna. Á Fljótsdalshéraði bætti flokkurinn einnig við sig manni.

Í Árborg, Vestmannaeyjum og Vesturbyggð var flokkurinn í hreinum meirihluta á síðasta kjörtímabili, en missti þá stöðu í kosningunum nú. Flokkurinn var einnig með hreinan meirihluta á Akranesi og í Mosfellsbæ á síðasta kjörtímabili, en starfaði þar þó í meirihlutasamstarfi með öðrum. Það meirihlutasamstarf hélt í Mosfellsbæ, en náðist ekki á Akranesi.

Þá var flokkurinn í meirihlutasamstarfi í Grindavík, í Borgarbyggð, í Fjarðabyggð, á Hornafirði, í Norðurþingi og í Fjallabyggð sem hélt ekki eftir nýliðnar kosningar.