Tími til að breyta til í borginni

Eyþór Arnalds, oddviti og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Í dag er dagurinn upp runninn. Í dag getum við breytt Reykjavík. Í dag kjósum við um framtíðina, hvort við viljum óbreytt ástand eða breytta, betri og lifandi borg.

Við viljum að Reykjavík standi undir nafni sem höfuðborg, að hún hafi aðdráttarafl bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Sé borg þar sem bæði athafnalíf og menningarlíf geta blómstrað og ólíkt fólk – mislangt komið á ævigöngunni – með ólík áhugamál og hagsmuni, ólík efni og aðstæður, getur búið saman í fjölbreyttri borg, hver eins og hann fær um ráðið.

Við viljum að Reykjavíkurborg sinni öllum íbúum sínum og gestum jafnvel, óháð búsetu, aldri eða öðrum þáttum.

Það blasa ýmis vandamál við í Reykjavík, en til allrar hamingju eru þau alls ekki óleysanleg, þótt sumum vaxi þau í augum og fallist jafnvel hendur. Það er hins vegar skylda okkar stjórnmálamanna að horfast í augu við vandann, finna á honum raunhæfar lausnir og umfram allt að láta verða af þeim. Hér og nú, ekki einhvern tímann seinna í óljósri framtíð.

Það ætlum við gera. Við munum gera það sem við segjum.

Borgin hefur aðeins eitt hlutverk og það er að þjóna íbúum sínum. Hún þarf að veita þeim rými til þess að búa, starfa og lifa, greiða götu þeirra og veita þeim skjól og aðstoð sem höllum fæti standa. Við ætlum að einbeita okkur að þjónustu við borgarbúa, gera hana auðvelda, skiljanlega og skilvirka.

Þannig fá borgarbúar best notið sín, þannig vex Reykjavík og dafnar, þannig byggjum við betri borg saman.

Við búum í frábærri borg með ótal tækifæri, en við verðum að nýta þau. – Það er kominn tími til þess að breyta til í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. maí 2018.