Sjálfstæðisflokkinn til forystu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:

Í dag göngum við að kjörborðinu til að kjósa sveitarstjórnir til næstu fjögurra ára. Sjálfstæðisflokkurinn býður fram í 34 sveitarfélögum um allt land, ýmist einn og sér eða í samstarfi við óháða. Enginn annar stjórnmálaflokkur á Íslandi býður fram jafnmarga framboðslista, í litlum byggðarlögum sem stórum.

Síðastliðna daga höfum við í forystu Sjálfstæðisflokksins ferðast vítt og breitt um landið, setið fundi og heimsótt vinnustaði. Bar- áttan gengur vel og almennt skynjum við mikla bjartsýni hjá fólkinu í landinu.

Þar sem sjálfstæðismenn eru í meirihluta hafa íbúar kynnst styrkri og góðri stjórn, ábyrgð í fjármálum, hóflegum álögum og framúrskarandi þjónustu. Sjálfstæðisstefnan er hófsamleg og borgaraleg framfarastefna, enda vitum við að velgengni fólks og fyrirtækja helst í hendur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa einvalaliði um allt land, sem býður fram krafta sína til að stuðla að enn betra samfélagi í sveitarfélögum landsins. Frambjóðendur flokksins eru þannig reiðubúnir til þjónustu fyrir umbjóðendur sína – kjósendurna.

Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélag landsins og þar er löngu orðið tímabært að kjósa breytingar til hins betra. Að auka grunnþjónustu við íbúana þannig að þjónustan sem þeir njóta sé sambærileg við það sem gerist og gengur, svo sem á leikskólum borgarinnar. Að gera fjárhag borgarinnar burðugan á ný svo hægt sé að minnka álögur. Það þarf að búa svo um hnútana að ungt fólk geti sest að í Reykjavík, auka fjölbreytni í búsetuháttum, skipuleggja ný hverfi og leysa húsnæðiskreppuna sem núverandi borgarmeirihluti bjó til af ásettu ráði. Það er kominn tími til að breyta í Reykjavík.

Og nú er komið að því að við nýtum kosningaréttinn, dæmum um verk liðinna ára og leggjum okkar af mörkum til þess að móta samfélagið næstu fjögur ár. Látum ekki okkar eftir liggja, mætum á kjörstað og tryggjum góðan sigur sjálfstæðisfólks um allt land. Þannig gerum við lífið betra.

Greinin biritist fyrst í Morgunblaðinu 26. maí 2018.