Það helsta hjá D-listanum í Rangárþingi eystra

Anton Kári Halldórsson, 1. sæti í Rangárþingi eystra:

Helstu áherslur D-listans og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra snúa að bættum hag og betri þjónustu við fjölskyldufólk í sveitarfélaginu. Við viljum einfaldlega að hér sé best að búa. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að líta inn á við og gera ákveðnar breytingar innan stjórnsýslunnar. Við leggjum mikið upp úr því að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé opin og gegnsæ.

Mikilvægt er að auka þátttöku íbúanna í ákvarðanatökum sveitarstjórnar, t.d. með því að virkja í auknum mæli þær fjölmörgu nefndir sem skipaðar eru af sveitarstjórn og gera störf þeirra skilvirkari. Upplýsingaflæði og samskipti við íbúa þarf einnig að bæta til muna.

Skólana okkar þurfum við að styðja vel við og halda áfram uppbyggingu þeirra með það að markmiði að öll börn hafi þar jöfn tækifæri. Gott starfsfólk er forsenda fyrir farsælu skólastarfi og það starfsfólk höfum við svo sannarlega hér. Við þurfum einnig að halda áfram og gera enn betur í því að styrkja og styðja ófaglært starfsfólk til að afla sér fagmenntunar.

Við þurfum að veita starfsfólki hvatningu og stuðning við fjölbreytt og lifandi skólastarf ásamt því að hvetja og styðja við endurmenntun þess. Nauðsynlegt er að hafist verði handa við byggingu nýs leikskóla á núverandi skólasvæði á kjörtímabilinu.

Marga þætti þarf að skoða til þess að sveitarfélagið okkar verði sem ákjósanlegastur búsetukostur. Við viljum endurskoða gjaldskrár sveitarfélagsins með tilliti til lækkunar þeirra, svo sem leikskólagjalda sem við stefnum á að lækka í þrepum út kjörtímabilið.

Mikilvægt er að fjölbreytt atvinnulíf blómstri hér og að húsnæðisþörf sé leyst með framsýnu skipulagi og sanngjörnu lóðaverði.

Við á D-listanum erum ung, gömul, óreynd og reynd, en fyrst og fremst brennum við öll fyrir að vinna fyrir sveitarfélagið okkar eins vel og okkur er unnt og nýta þau miklu tækifæri sem framundan eru. Tækifærin eru hér og ekki eftir neinu að bíða. Kjósum breytingar til hins betra og setjum X við D í Rangárþingi eystra.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni 24. maí 2018.