Þar sem verkin tala
'}}

Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim breytingum sem hafa orðið í Vestmannaeyjum á undanförnum árum undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna.

Sterk málefnastaða

Vestmannaeyjabær hefur farið úr því að vera eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins í það að vera eitt þeirra minnst skuldsettustu. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika sveitarstjórnar til bæta lífskjör íbúanna í dag og hefur ekki síst áhrif á tækifæri þeirra sem munu stjórna bæjarfélaginu í framtíðinni til að bæta lífskjörin enn frekar.
Eftir stórsigur Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum höfðu menn á orði að erfitt yrði að toppa þann glæsilega sigur. Engu að síður var ljóst eftir því sem leið á kjörtímabilið að ekkert virtist því til fyrirstöðu að árangurinn yrði einmitt toppaður. Þegar stjórnmálamenn láta verkin tala, gera það sem þeir segjast ætla að gera og meina það sem þeir segja, líkt og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sannarlega gert á kjörtímabilinu, þá hljóta kjósendur að vera ánægðir. Sveitarstjórnarmál snúast um málefni og málefnastaða sjálfstæðismanna í Eyjum er sterk.

Öflugur bæjarstjóri

Elliði Vignisson er öflugur málsvari Vestmannaeyja. Við frændsystkinin settumst bæði í stól framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, hvort sínu megin við sundið. Samskiptin voru mikil, samstarfið gott þó auðvitað værum við ekki alltaf sammála um alla hluti. Málefni Landeyjahafnar voru þar í forgrunni bæði framkvæmdin sjálf en ekki síður tækifærin og möguleikarnir á auknu samstarfi Rangárþings eystra og Vestmannaeyja með tilkomu hafnarinnar. Í gegnum þessi samskipti fékk ég góða innsýn í þau stóru og alvarlegu verkefni sem blöstu við bæjarstjórn Vestmannaeyja varðandi reksturinn, fólksfækkun og baráttuna fyrir bættum samgöngum og heilbrigðisþjónustu. Sá viðsnúningur sem hefur orðið í Eyjum er ekki sjálfgefinn, hann næst aðeins með þrautseigu, áræðni og miklum viljastyrk. Þegar ég tók sæti á Alþingi hélst áfram gott samstarf og ég get leyft mér að segja að Elliði er óþreytandi baráttuhundur fyrir bættu samfélagi í Vestmannaeyjum, svo eftir er tekið á landsvísu.

Í hnotskurn

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt það með verkum sínum að þeir eru traustsins verðir. Það skiptir máli hverjir stjórna og sjálfstæðismenn geta verið stoltir af þeim mikla árangri sem náðst hefur við stjórnun bæjarfélagsins undanfarin kjörtímabil. Ég vona svo sannarlega að íbúar Vestmannaeyja velji áfram þá sem láta verkin tala og setji X við D á laugardaginn.

Greinin birtist fyrst á vef Eyjafrétta 24. maí 2018.