Lækkum byggingarkostnað í Reykjavík um 20%

Eyþór Arnalds, oddviti og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Hildur Björnsdóttir, sem skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík boðuðu til blaðamannafundar í dag í húsakynnum IKEA þar sem þau kynntu hvernig megi lækka húsnæðiskostnað í Reykjavík um 20% með einföldum hætti.

Í dag er 56% af heildarbyggingarkostnaði húsnæðis framkvæmdakostnaður. Að því leiðir að 44% kostnaðar er lóðaverð, hönnunarkostnaður, fjármagnskostnaður og annar kostnaður.

Með nýju innviðagjaldi sem meirihlutinn í Reykjavík ætlar að setja á mun kostnaður við að byggja íbúð sem í dag kostar 40 milljónir að byggja hækka í 44 milljónir. Það þýðir að um 50% kostnaðar verður annar kostnaður en beinn byggingakostnaður.

Það getur ekki verið eðlilegt að helmingur af kostnaði stjórnist að miklu leyti af sköttum, opinberum kvöðum og töfum vegna lélegrar stjórnsýslu. Þessu þarf að breyta.

Sjálfstæðisflokkuirnn í Reykjavík ætlar að lækka þennan kostnað um 20% með því að:

  • Lækka opinber gjöld á byggingarlóðir.
  • Minnka kvaðir sem valda hærra húsnæðisverði.
  • Einfalda stjórnsýslu þannig að afgreiðslustími verði eðlilegur.

Hagkvæmari byggingarreiti

Eyþór og Hildur kynntu jafnframt á fundinum að til þess að hagræðingin skili sér til almennings en ekki til verktaka standi einnig til að tryggja nægt framboð lóða á hagkvæmum reitum, t.d. á BSÍ-reitnum sem er álíka stór og LSH-lóðin. Í dag stendur þar bensínstöð og umferðarmiðstöð fyrir rútur. Þar gætu hins vegar staðið a.m.k. 600 íbúðir sem væru kjörnar fyrir þá sem sækja háskóla og vinnu í miðborginni. Fyrir ungt fólk og jafnvel fyrir eldri borgara sem eiga þá stutt að sækja í heilbrigðisþjónustu.