Ábyrg og traust forysta Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, heimsótti Vestmannaeyjar í dag þar sem hann heilsaði upp á flokksmenn sína og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins.

Hann byrjaði daginn á því að kíkja í morgunkaffi í Ásgarði þar sem gríðarlega vel var mætt og mikil og góð stemning.

Í ávarpi sínu lagði Bjarni áherslu á að það væri bara einn Sjálfstæðisflokkur í Vestmannaeyjum. Hann ræddi um hversu vel rekið bæjarfélag Vestmannaeyjabær væri undir ábyrgri og traustri forystu Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að þetta sæist vel á allri uppbyggingu í bænum og að rekstur bæjarins væri til fyrirmyndar fyrir mörg önnur sveitarfélög á Íslandi. Bjarni ræddi samgöngu- og heilbrigðismálin og sagði forystumenn bæjarins mjög duglega að brýna sig með þau mál. Mikilvægt væri að standa þar vel að verki. Þá sagði Bjarni afar mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram í meirihluta í Vestmannaeyjum.

Bjarni heimsótti jafnframt vinnustaði í heimsókn sinni ásamt frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnar.