Það er vont – það venst – en það versnar

Marta Guðjónsdóttir, 5. sæti í Reykjavík:

Borgarstjórnarkosningarnar munu í megindráttum snúast um stóru framboðin: fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Fylgi þessarra flokka mun ráða úrslitum um það hvort Reykvíkingar vilji tafarlausar og raunhæfar ráðstafanir til  að lækka skatta, sjá öllum börnum fyrir leikskólarými, lækka leigu- og húsnæðisverð með framboði á ódýrari byggingarlóðum og draga úr svifryksmengun, umferðarslysum og síauknum umferðartöfum fólksbíla og almenningsvagna með auknu umferðarflæði um stofnbrautir borgarinnar – eða hvort Reykvíkingar vilji „óbreytt ástand“.

Röng stjórnmálastefna

„Óbreytt ástand“ er slæmt og mun verra en það var fyrir fjórum árum. Um það þarf ekkert að karpa: Allar tölur og staðreyndir tala sínu máli: Borgaryfirvöld leggja hæsta leyfilega útsvar á borgarbúa og hugmyndaauðgi þeirra blómstrar helst í þeirri viðleitni að finna upp stöðugt nýjar álögur, allt frá skrefagjöldum á sorphirðu til innviðargjalds. Stöðugt fleiri börn fá ekki leikskólarými, leikskólunum er illa við haldið og sumir þeirra hafa verið heilsuspillandi sökum  sveppa, myglu og möls. Borgaryfirvöld hafa fylgt lóðaskortsstefnu sem er ein meginástæðan fyrir mestu hækkunum á húsnæði og leiguverði í Íslandssögunni. Stefna borgaryfirvalda í samgöngumálum felst í því að leggja stein í götu vegfarenda, hvort sem þeir ferðast með fólksbílum eða almenningsvögnum. Árangurinn er sá að ferðatími borgarbúa hefur lengst um 26% á einungis fjórum árum. Ljósastýrðum gatnamótum á stofnbrautum fjölgar stöðugt í stað þess að fækka. Meðan eitt ökutæki færist úr stað standa tvö í lausagangi við umferðarljós. Afleiðingarnar eru gríðarleg aukning á heilsuspillandi svifryksmengun í Reykjavík. Ekkert af þessu samfélagsböli, sem í sumum tilfellum er að nálgast þolmörk, er óviljaverk, heldur fyrirsjáanlegar afleiðingar rangrar stjórnmálastefnu.

Vont versnar

Nú eru áreiðanlega einhverjir sem segja sem svo: „Ég vil óbreytt ástand. Það er vont – en það venst.“ En gallinn er bara sá að „óbreytt ástand“ er ekki í boði. Það er að vísu vont og kannski venst það, en það á eftir að versna ef kjósendur grípa ekki í taumana. Það á eftir að versna því núverandi ófremdarástand er einfaldlega afleiðing af rangri stefnu í skipulags-, samgöngu- og húsnæðismálum. Borgaryfirvöld hafa ekki viðurkennt að stefna þeirra sé röng. Þau telja ekki að hún þarfnist endurskoðunar og þau afneita þeim alvarlegu afleiðingum sem hún hefur haft í för með sér.

Ef Samfylkingin ræður áfram ferðinni eftir kosningar mun gjöldum  á borgarbúa halda áfram að fjölga og hækka, húsnæðis- og leiguverð halda áfram að hækka, ferðatími innan borgarinnar verður a.m.k. orðinn helmingi lengri eftir fjögur ár en hann var fyrir fjórum árum og svifryksmengunin heldur áfram að aukast.

Gallinn við núverandi borgaryfivöld er ekki sá að þau geri mistök. Það gerum við öll. Gallinn er fólginn í því að þau viðurkenna aldrei mistök sín og læra því aldrei af þeim. Við skulum því ekki segja á kjördag: „Það er vont en það venst“ – því lengi getur vont versnað.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 19. maí 2018.