Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins er meðal frummælenda á fjölmennum fundi sem nú stendur yfir á Hótel Héraði á Egilsstöðum undir yfirskriftinni „Draumalandið Austurland“.
Fundurinn er haldinn af D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra á Fljótsdalshéraði og meðal umræðuefna er íbúaþróun svæðisins, þróun atvinnulífs og samgangna, hvort sem er vegakerfi eða flugsamgöngur. Rætt er um tækifæri og áskoranir sem Austurland stendur frammi fyrir, ekki síst möguleika tengda ferðaþjónustu. Mikil samstaða er á fundinum og fundarmenn almennt sammála um að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum – en þátttakendur á fundinum eru víða að af Austurlandi.
Aðrir frummælendur eru; Ívar Ingimarsson, ferðaþjónustubóndi á Óseyri, Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, Kristín Ágústsdóttir, 10. sæti á D-listanum í Fjarðabyggð, Skúli Vignisson, 3. sæti á D-listanum á Seyðisfirði og Sigrún Hólm Þorleifsdóttir, 5. sæti á D-listanum á Fljótsdalshéraði. Fundarstjóri er Anna Alexandersdóttir, oddviti D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra á Fljótsdalshéraði.
Eins og meðfylgjandi myndir sýna er fundurinn afar vel sóttur og góð stemning.
Hér má svo finna heimasíðu framboðs Sjálfstæðismanna og óháðra á Fljótsdalshéraði með upplýsingum um áherslur framboðsins og frekari viðburði fram að kosningum.