Sjarmi við sjávarplássið

Hildur Björnsdóttir, 2. sæti í Reykjavík:

Ljúfsár lykt af sjávarfangi vekur minningar. Dægradvöl við dorgveiði á sólríkum degi. Skip koma að höfn til hvíldar. Börn bralla við bryggju í brælu. Lifandi tengsl fólks við haf og höfn. Æskuminningar úr sjávarplássinu Hafnarfirði. Búsetukostir og hafnarstarfsemi fóru laglega saman. Gamla höfnin í Reykjavík hefur tekið breytingum. Umsvif útgerðar á hafnarsvæðinu hafa minnkað. Hafnsækin starfsemi þarf nú minna landrými en áður. Ásókn rekstraraðila í húsnæði sem áður hýsti sjávarútveg hefur aukist. Þar finnst nú blómleg verslun og þjónusta. Örfirisey er lifandi – en þar býr ekkert fólk.

Það er skortur á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Skorturinn er viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Fjölga þarf hagstæðum búsetukostum vestarlega þar sem eftirspurn er mikil. Tryggja þarf fleiri búsetumöguleika í námunda við stærstu vinnustaði borgarinnar. Tugþúsunda íbúðaþörf næstu ára verður ekki að fullu svarað á þéttingarreitum í miðborg og nágrenni. Það þarf ný svæði og nýjar hugmyndir.

Örfirisey er að mestu byggð á landfyllingum – svæðið mætti stækka enn frekar. Með þeim hætti hafa ýmis hverfi höfuðborgarsvæðisins risið. Framkvæmdin er einföld á grunnsævi, fyllingarefni úr húsagrunnum ódýrt og uppdæling af sjávarbotni auðveld. Fjárfestingin er góð enda eignast borgin verðmætt land. Sjálfstæðisflokkurinn sér möguleika á 4.000 íbúða lágreistri byggð með áherslu á spennandi lausnir fyrir ungt fólk. Hagstæðar lóðaúthlutanir til byggingar hagkvæmra búsetueininga. Allt yrði þetta viðfangsefni vandaðrar skipulagsvinnu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill reisa bíllausa byggð – mannvæna byggð í sátt við útgerð og fiskvinnslu. Vistvæna og græna byggð sem ekki þrengir að hafnsækinni starfsemi. Byggð sem stendur vörð um gömlu höfnina og mikilvægi hennar fyrir atvinnulíf og sögu borgarinnar. Byggð sem blandar saman búsetukostum og borgarstarfsemi – samspil sjávar og mannlífs – sjálfbæra og lifandi Örfirisey.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir frelsi og val – fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Frelsið til að velja samgöngukosti og fjölbreytta búsetukosti. Frelsið til að velja bíllausa byggð – til kaupa á fasteign, án kaupa á bílastæði. Val um hagkvæmar búsetueiningar. Val um að eignast heimili. Sáldrandi sjarma við sjávarplássið og lifandi byggð við sjávarsíðuna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. maí 2018