Reykjanesbær rokkar, já hann er okkar

Baldur Guðmundsson, 2. sæti í Reykjanesbæ:

Hljómahöllin sem opnuð var í apríl 2014 hefur reynst mikil lyftistöng fyrir mannlífið hér í bæ. Ekki líður sá dagur að ekki sé kátt í höllinni. Rokksafnið hefur dregið til sín tugþúsundir gesta frá opnun og salir Hljómahallar, Stapinn, Berg og  Merkines hafa hýst marga viðburði af öllum stærðum og gerðum.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er einn sá glæsilegasti á landinu og hefur skilað mörgum listamanninum í hringiðu tónlistarinnar. Það er því vel við hæfi að hin vel heppnaða tónleikaröð Trúnó skuli enda á tónleikum með Hjálmum sem eru afsprengi tónlistarskólans og menningararfsins okkar.
Við verðum því að standa vörð um Hljómahöllina nú þegar hún er til sölu sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu bæjarins. Tónlistarmenningin verður áfram að fá að njóta sín og halda á lofti ímynd Reykjanesbæjar sem tónlistarbæjar.

Með samstilltu átaki íbúa hefur okkur tekist að gera Ljósanótt að hausti að einni stærstu fjölskylduhátíð landsins. Á sama hátt er barnahátíð að vori orðin stórviðburður í hátíðaflóru landsins. Við munum leggja áherslu á að þróa og viðhalda þessum hátíðum og kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að bæta við einni bæjarhátíð til viðbótar að vori sem endurspeglar tónlistarmenningu okkar.

Greinin birtist fyrst á vef Víkurfrétta 14. maí 2018 (sjá hér).