Grafarvogurinn minn

Valgerður Sigurðardóttir, 3. Sæti í Reykjavík.

Að alast upp í umhverfi þar sem náttúran umlykur þig eru forréttindi. Fjöruferðir að tína skeljar og skoða marflær. Skjótast bakvið hús og kroppa upp í sig bláber eða krækiber. Skottast svo í ísbúðina eða rölta í keilu og bíó. Hlusta á Lóuna syngja inn sumarið og horfa á hrossagaukana skjótast á milli steina með ungviðið.

Einhverjir kunna gjarnan að halda að þetta sé ímyndaður hugarheimur. Að ekki sé hægt að búa í borg en samt í svo náinni snertingu við náttúruna. Þetta er ekki ímyndun. Þetta er Grafarvogurinn minn. Umhverfi sem faðmar mann, mannlífið og máttur þess sem fær mig til þess að vilja hvergi annars staðar vera. Það er ótrúlegt að mynda svo sterkar rætur við mannlíf og umhverfi verandi fædd og uppalin í sveit austur á landi. Merkilegt að fá heimþrá heim í Grafarvoginn þegar farið er austur í frí. Eitthvað sem mig óraði aldrei fyrir að ég ætti eftir að upplifa.

Það líða gjarnan helgar án þess að við fjölskyldan snertum bílinn og það er langt frá því að okkur leiðist eða húkum inni. Grafarvogur hefur upp á svo margt að bjóða. Við grínumst oft með það við börnin okkar að þau þurfi ekki að fara út úr hverfinu, hægt er að taka iðnnám í Borgarholtsskóla og sækja um vinnu hjá fyrirtækjum í Grafarvogi. Við erum montin af því að eiga góðan framhaldsskóla og hafa öflugan iðnað og þjónustu í hverfinu. Íþróttafélagið okkar Fjölnir er líka stolt okkar og telur flesta iðkendur allra íþróttafélaga á landinu. Betra forvarnarstarf er vandfundið og öll sú elja og dugnaður er þjálfarar leggja í starf Fjölnis verður seint þökkuð.

Vináttan sem hefur myndast milli okkar íbúanna er sterk, við erum nágrannar, kynnumst í skólastarf eða íþróttastarfi barnanna okkar. Vinátta sem er sönn og byggist á náungakærleik og hjálpsemi. Vinátta sem við höfum svo sannarlega upplifað sterkt á síðustu vikum. Við erum þakklát fyrir það að hafa valið Grafarvog sem okkar framtíðarheimili. Hér eru forréttindi að búa og alast upp, hér slá hjörtun í takt.

Greinin birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu þann 11. maí.