Bíllaus byggð

Hildur Björnsdóttir, 2. sæti í Reykjavík:

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill reisa blómlega byggð í Örfirisey. Á svæðinu þrífst nú verslun og þjónusta en íbúabyggð er ekki leyfð. Þessu viljum við breyta. Við viljum myndarlega þróun byggðar með fjölbreyttum búsetukostum og sérstakri áherslu á lausnir fyrir fyrstu kaupendur.

Við leggjum til að Örfirisey verði bíllaus byggð með áherslu á mannvænt borgarumhverfi. Við viljum skapa fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Borg sem mætir alls kyns þörfum. Borg sem býður borgarbúum frelsi og val um búsetukosti. Aukinn fjöldi fólks sýnir bíllausum lífsstíl áhuga. Bíllaus Örfirisey væri heillandi valkostur fyrir marga. Vistvænt hverfi með grænum áherslum.

Meirihluti borgarlands fer í dag undir bílaumferð og bílastæði. Minnihluti undir byggð og almannarými. Án bílaumferðar skapast rými fyrir aukið mannlíf, meiri byggð og fleiri græn svæði – meira andrými. Vel mætti hugsa sér 4.000 íbúða bíllaust hverfi. Áhersla væri á mannvænt umhverfi, lágreista byggð og vistvæna samgöngumáta. Umhverfi þar sem fólki líður vel.

Vissulega yrði ráðist í hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins en við leggjum fram tillögu svo fólk fái mynd af því hvernig svæðið gæti litið út.

Birtist fyrst á Vísi 12. maí 2018