Forréttindi að sjá ljósið á hverjum degi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér í dag til að hvetja þingheim til að láta sjá sig í göngu samtakanna Píeta sem verður farin aðfaranótt laugardags næstkomandi, 12. maí. Gangan er til minningar um þá sem hafa tekið sitt eigið líf og nefnist réttu nafni Úr myrkrinu í ljósið af því að hún er gengin kl. 4 um nóttina í morgunbirtuna. Það eru auðvitað allt of margir einstaklingar í okkar samfélagi sem sjá aldrei þessa birtu. Við getum stutt það fólk, þá ættingja og líka þá sem hafa séð birtuna og komist í hana með hjálp samtaka eins og Píeta með því að ganga saman inn í birtuna.

Við trúum að með vitundarvakningu og meiri umræðu um geðsjúkdóma og sjálfsvígshættuna getum við hvatt fleiri til að leita sér hjálpar sem annars hefðu ekki gert það. Píeta eru frábær samtök sem hafa úrræði fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum. Við þetta er svo afskaplega eðlilegt að styðja því að ef annar sjúkdómur eða slysahætta tæki frá okkur jafn marga og sjálfsvíg gera myndum við varla tala um annað. Þess vegna vil ég hvetja ykkur til að taka þátt. Það voru ansi margir þingmenn sem mættu í fyrra sem var fyrsta gangan hér á landi. Það er eðlilegt fyrir okkur að ganga með öðrum inn í birtuna því að það eru mikil forréttindi að sjá ljósið á hverjum degi.

Ræða flutt við störf þingsins miðvikudaginn 9. maí 2018