Loftmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk

Marta Guðjónsdóttur, 5. sæti í Reykjavík:

Svifryksmengun í Reykjavík er orðin að heilsuspillandi vandamáli og mælist allt of oft yfir viðmiðunarmörkum. Oftar en ekki sér heilbrigðiseftirlitið sig knúið til að vara borgarbúa við of mikilli loftmengun og þeir sem eru viðkvæmir í lungum eða með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt að halda sig innan dyra. Þá verða leikskólar sem staðsettir eru í nágrenni við stofnbrautir að halda börnum æ oftar inni vegna svikryksmengunarinnar.

Á síðasta ári kom hingað til lands bandarískur sérfræðingur að nafni Larry G. Anderson, til að meta aðstæður. Hann bar saman gögn um loftgæði í Reykjavík sem Orkuveitan og Orkustofnun hafa verið að mæla við samsvarandi gögn frá Bandaríkjunum.

Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar voru sláandi því svifryksmengunin í Reykjavík er mun meiri en í stórri iðnaðarborg í Bandaríkjunum. Þá kemur einnig fram í fyrstu vísbendingum í meistararitgerð Bergljótar Hjartardóttur í umhverfisverkfræði við HÍ að sótmengun í og við stofnbrautir í Reykjavík mælist jafn mikil og í Rotterdam og Helsinki.

Það er ótrúlegt og óábyrgt hversu lengi borgaryfirvöld hafa skellt skollaeyrum við ábendingum fræðimanna og látið reka á reiðanum að fara í aðgerðir í þeirri viðleitni að bæta loftgæði.

Við sjálfstæðismenn höfum margítrekað lagt fram tillögur þess efnis að brugðist verði hratt og örugglega við til að bæta loftgæðin í borginni. Nú síðast var slík tillaga felld á borgarstjórnarfundi í byrjun desember á síðasta ári.

Ástandið er orðið grafalvarlegt og farið að bitna á lífsgæðum borgarbúa, auk þess sem talið er að rekja megi allt að 80 dauðsföll á ári til svifryksmengunar. Við þessu verður að bregðast hratt og örugglega. Við verðum jafnframt að taka ábendingum fræðimanna alvarlega og tryggja að svifryksmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk.

Við sjálfstæðismenn ætlum að fara í aðgerðir strax til að ráðast á vandann með því að þrífa borgina oftar, þvo göturnar reglulega og auka umferðarflæði til að draga úr loftmengun bíla sem standa í lausagangi í umferðarteppum. Mengunarvaldur ökutækja felst fyrst og fremst í hröðun þeirra þ.e. breytingu á hraða, Staðreyndin er sú að ökutæki menga miklu meira ef þau eru stöðugt að hægja á sér, bremsa og stoppa og  taka síðan aftur af stað og auka hraðann, heldur en ökutæki sem aka á jöfnum hraða. Umferðarflæði er því einn meginþáttur í því að draga umtalsvert úr svifryksmengun.

Borgaryfirvöldum ber að setja heilsu og lífsgæði borgarbúa í öndvegi.

Greinin birtist fyrst í Árbæjarblaðinu í maí 2018