Biðraðir og kröfur kerfisins

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Við get­um ekki leyft okk­ur að skipu­leggja heil­brigðis­kerfið út frá þörf­um kerf­is­ins sjálfs. Þarf­ir sjúkratryggðra – allra lands­manna – eiga alltaf að vera í for­gangi. Við get­um held­ur ekki tekið ákvörðun um sam­eig­in­lega fjár­mögn­un þjón­ust­unn­ar til að mæta kröf­um kerf­is­ins en hlustað lítt á ósk­ir þeirra sem þurfa að nýta sér þjón­ust­una.

Sem sam­fé­lag eig­um við ekki að hafa það sem sér­stakt mark­mið að auka út­gjöld til heil­brigðismála. Auk­in lífs­gæði með góðri öfl­ugri heil­brigðisþjón­ustu fyr­ir alla er og á að vera mark­miðið. Því miður virðist sem við miss­um sjón­ar á þessu í amstri dags­ins og póli­tísk­um deil­um um hluti sem eru léttvæg­ir í sam­an­b­urði við heilsu og lífs­gæði.

Brengl­un og eng­in vit­glóra

Ragn­ar Hall hæsta­rétt­ar­lögmaður fjallaði í ný­legri blaðagrein um þá brengl­un sem hef­ur verið innleidd í ís­lenskt heil­brigðis­kerfi. Þrátt fyr­ir að hundruð lands­manna bíði eft­ir liðskiptaaðgerðum neit­ar ríkið að nýta sér þjón­ustu einkaaðila hér á landi og tel­ur rétt, þrátt fyr­ir mun hærri kostnað, að senda fólk frem­ur úr landi til að gang­ast und­ir nauðsyn­lega aðgerð:

„Ef þú ert til í að fara í aðgerð sem kost­ar 3 millj­ón­ir greiðum við hana að fullu. En ef þú ætl­ar að fara í slíka aðgerð hjá NN hér á landi, þá skaltu vita að við greiðum ekk­ert, enda þótt kostnaður­inn verði aðeins 1 millj­ón. Hver maður sér að ekki er vit­glóra í svona kerfi.“

Það er ekki hægt að mót­mæla full­yrðingu lög­manns­ins; það er eng­in vit­glóra í þessu kerfi. Und­ir þetta tek­ur Stein­grím­ur Ari Ara­son, for­stjóri Sjúkra­trygg­inga Íslands, í blaðagrein í Frétta­blaðinu. Þar kem­ur fram að í byrj­un árs­ins voru 1.100 ein­stak­ling­ar á biðlista eft­ir liðskiptaaðgerð. Meðalbiðtíminn er í raun 12-14 mánuðir, þar sem marg­ir eru á biðlista mánuðum sam­an eft­ir að kom­ast á biðlista!

Þrátt fyr­ir ósk­ir Sjúkra­trygg­inga Íslands hafa stjórn­völd hafnað því að gerðir séu samn­ing­ar við einkaaðila um gerviliðaaðgerðir til að mæta þeirri þörf sem op­in­ber­ir aðilar geta ekki sinnt. Stefn­an er skýr að þessu leyti: Liðskiptaaðgerðir skulu aðeins verða í boði hjá stofn­un­um rík­is­ins. Þarf­ir hinna sjúkra­tryggðu eru sett­ar til hliðar – kerfið er í for­gangi og þá er líkt og kostnaður­inn verði auka­atriði. Van­líðan og kval­ir sjúk­linga gleym­ast. Þjóðhags­legt tap veld­ur litl­um áhyggj­um.

Lausn­in: Biðraðir?

Í Sov­ét­ríkj­un­um sál­ugu voru biðraðir hluti af dag­legu lífi. Bíða þurfti eft­ir öllu, jafn­vel eft­ir lífsnauðsynj­um í mat­vöru­búðum. Al­menn­ing­ur eyddi sín­um tíma í biðröðum. Í grá­myglu biðraðanna var haft að orði að biðraðamenn­ing­in væri skyn­sam­leg stefna stjórn­valda sem þannig losnuðu við að byggja elli­heim­ili, því æv­inni eyddi fólkið í að bíða.

Varla dett­ur nokkr­um manni í hug að sækja í smiðju Sov­ét­ríkj­anna við að skipu­leggja heilbrigðisþjónustu, en samt sem áður hef­ur kerfið ákveðið að frem­ur skuli byggt und­ir biðraðamenninguna en að nýta sér þjón­ustu einkaaðila sem upp­fylla all­ar fag­leg­ar kröf­ur.

Við þurf­um að glíma við marg­ar áskor­an­ir við skipu­lag heil­brigðis­kerf­is­ins. Þeim áskor­un­um er ekki hægt að mæta með því að lengja biðlista og jafn­vel taka upp sér­staka biðlista eft­ir að kom­ast á biðlista. Jöfnuður eykst ekki í biðröðum held­ur þvert á móti. Mis­rétti verður meira og hinir efna­meiri kaupa nauðsyn­lega þjón­ustu í öðrum lönd­um eða beint af einkaaðilum.

Við Íslend­ing­ar höf­um góða reynslu af samþætt­ingu og sam­vinnu einka­rek­inna fyr­ir­tækja og opinberra stofn­ana. Sér­fræðilækn­ar starfa marg­ir sjálf­stætt, einka­fyr­ir­tæki sinna for­vörn­um og endur­hæf­ingu, reka hjúkr­un­ar­heim­ili og sjálf­stætt starf­andi ljós­mæður bjóða ung­um mæðrum sína þjón­ustu. Einkaaðilar reka heilsu­gæslu­stöðvar þar sem ánægja viðskipta­vin­anna er mik­il. Þannig má lengi telja. En þrátt fyr­ir allt þetta er þjón­usta þess­ara aðila gerð tor­tryggi­leg og í stað þess að nýta sér kosti einka­rekstr­ar þar sem það er skyn­sam­legt, virðist sem kerfið sjálft hafi öðlast sjálf­stætt líf. Þörf­um sjúkra­tryggðra er ekki mætt og biðraðir eru tald­ar æski­legri en að semja við einkaaðila um þjón­ustu.

Af­leiðing­in er verra heil­brigðis­kerfi, minni jöfnuður, lak­ari sam­keppn­is­hæfni heil­brigðis­kerf­is­ins til að laða að hæfi­leika­ríkt starfs­fólk og til framtíðar hærri kostnaður en ella.

Gríðarleg hækk­un út­gjalda

Sam­kvæmt fjár­lög­um síðasta árs var reiknað með að fram­lag rík­is­sjóðs til heil­brigðismála yrði tæp­ir 193 millj­arðar króna. Sam­kvæmt fjár­mála­áætl­un sem nú ligg­ur fyr­ir þingi er stefnt að mikl­um hækkun­um til heil­brigðismála allt til árs­ins 2023. Það ár verða út­gjöld rík­is­ins rúm­lega 56 millj­örðum króna hærri á föstu verðlagi en á síðasta ári, eða 249 millj­arðar. Hækk­un­in er tíu millj­örðum hærri fjár­hæð en heild­ar­út­gjöld vegna hjúkr­un­ar og end­ur­hæf­ing­ar á fjár­lög­um 2017.

Ekki er óeðli­legt að út­gjöld til heil­brigðismála hækki frá ári til árs, m.a. vegna fjölg­un­ar lands­manna, breyttr­ar ald­urs­sam­setn­ing­ar, dýr­ari tækja og hærri launa heil­brigðis­starfs­manna. En við get­um spyrnt við fót­um því það get­ur ekki verið að við ætl­um að verja þess­um auknu fjár­mun­um í biðraðir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2018.