Stuttur viðbragðstími og sérhæfð meðferð á vettvangi skipta sköpum

„Það er hægt að gera svo miklu, miklu betur í þessum málaflokki hér á landi og það er það sem við ætlum að gera. Við verðum að setja utanspítalaþjónustuna á sama stall og aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu með gerð stefnumörkunar. Í þeirri stefnumörkun þarf að taka á skipulagi og utanumhaldi þessarar þjónustu, gæðamálum er varðar skráningar, menntun og þjálfun og öryggi starfsmanna, nýtingu nýjustu tækni og búnaðar,“ sagði Vilhjálmur Árnason, alþingismaður á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um framtíð og fyrirkomulag utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga sem hann var málshefjandi að, en til andsvara var heilbrigðisráðherra.

„Eins og staðan er í dag þá höfum við yfirlækni utanspítalaþjónustu einungis í 50% stöðugildi. Fagráð sjúkraflutninga hefur ekki burði til að sinna því hlutverki sem því er ætlað, það er án fjárheimilda og þar á enginn rekstraraðili úr dreifðum byggðum sæti. Sjúkraflutningaskólinn er eitt stöðugildi og svo er til fullt af skýrslum en engin stefna. Það vantar öfluga og heildstæða umgjörð,“ sagði Vilhjálmur.

Hann sagði að við ættum við þá stefnumörkun hefðum við fyrirmyndir í löndunum í kringum okkur sem rétt væri að nýta.

„Einnig þarf að tryggja að hlustað sé á fjölbreyttar raddir þeirra sem sinna þessari þjónustu í dag. Hér væri hægt að halda sérstaka ræðu um hvert og eitt þessara atriða,“ sagði Vilhjálmur.

Vilhjálmur vill „setja á fót stofnun eða miðstöð til þess að halda utan um málaflokkinn og vinna að gæðamálum og samræmingu þjónustunnar um allt land, miðstöð utanspítalaþjónustu.“

„Hitt er ekki minna mikilvægt en það er að taka upp notkun á sérhæfðri sjúkraþyrlu sem yrði mönnuð með sérhæfðum lækni og bráðatækni auk flugmanna. Öll þau lönd sem við viljum bera okkur saman við nýta sjúkraþyrlur til að koma sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fljótt og örugglega á vettvang til að tryggja að sérhæfð meðferð hefjist sem fyrst. Stuttur viðbragðstími og sérhæfð meðferð á vettvangi skipta sköpum í alvarlegum slysum og þeim veikindum þar sem bráð truflun verður á starfsemi öndunarfæra, hjarta og blóðrásar eða heila eins og við kransæðastíflu og heilablóðfall,“ sagði þingmaðurinn.

Umræðuna í heild má finna hér.