Íbúar í forgang

Hildur Björnsdóttir, 2. sæti í Reykjavík:

Við fjölskyldan bjuggum í London um tíma. Við vorum heilluð af lífsstílnum sem borgin bauð. Hverfin voru sjálfbær og verslun mátti nálgast á tveimur jafnfljótum. Öll helsta þjónusta innan seilingar. Almenningssamgöngur voru öflugar og bílaeign óþörf. Þegar við fluttum aftur til Íslands byggði búsetuval á einni forsendu. Við vildum búa í hverfi sem gat boðið sama lífsstíl. Við fluttum í miðborgina.

Við sem átt höfum fjölskyldu í miðborginni þekkjum flest athugasemdir þess efnis að hverfið sé enginn staður fyrir börn. Þessu er ég ósammála. Miðborgin er þvert á móti skemmtilegur staður fyrir börn. Þar er nóg af grænum svæðum og fjölbreyttum leiksvæðum. Þar njóta fjölskyldur þeirra forréttinda að ala upp börn í faðmi menningar og mannlífs.

Síðustu misseri hefur húsnæðisverð í miðborginni hækkað verulega, einkum vegna ásóknar í ferðamannagistingu en ekki síður vegna húsnæðisskorts. Þetta hefur leitt af sér flótta fjölskyldufólks úr miðborginni. Það er áhyggjuefni. Þegar við fjölskyldan hugðumst leita stærra og fjölskylduvænna húsnæðis í hverfinu gripum við í tómt. Ekkert virtist byggt nema lúxusíbúðir og stærra húsnæði var á uppsprengdu verði. Eftir mikla leit fluttum við úr hverfinu.

Í sparistofunni býr fólk

Miðborgin er sparistofa okkar Reykvíkinga. Þar hittumst við á hátíðisdögum og þar tökum við á móti gestum. Ferðamannastraumurinn í miðbænum hefur vissulega leitt af sér tiltekna grósku. Gjarnan mætti þó dreifa ferðamönnum víðar um borgina og leggja áherslu á uppbyggingu hótelreksturs í fleiri hverfum. Því má ekki gleyma að í miðborginni býr líka fólk – og þarfir íbúanna eiga alltaf að njóta forgangs.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík leggur áherslu á að miðborgin sé lífvænlegur staður fyrir fólk og fjölskyldur. Þéttingarstefna er almennt góð en hún hefur gengið of langt í hverfinu og skert lífsgæði íbúanna. Húsnæðisverð hefur valdið fólksflótta enda hefur íbúum miðborgar fækkað ört. Fjölskyldufólki fækkar ört. Miðborgin verður ekki spennandi staður fyrir ferðamenn að sækja heim ef þar finnst ekki lengur heimafólk.

Stöndum vörð um öll hverfi borgarinnar og þeirra sérkenni. Stöndum vörð um miðborgina. Tryggjum áfram blómlegt mannlíf og bætum lífsgæði íbúa.

Birtist fyrst í Miðborgarblaðinu 25. apríl 2018