Til hamingju Grafavarvogsbúar!

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi:

Ég óska íbúum til hamingju með að loksins hefur barátta okkar sjálfstæðismanna um lengri opnunartíma sundlaugarinnar í Grafarvogi skilað sér en sjálf flutti ég tillögu þess efnis borgarstjórn í fyrra.  Nánar tiltekið í september í fyrra en auk tillögunnar skipti ekki minna máli þrýstingur íbúa með undirskriftasöfnun.

Sundið er sú íþrótt sem flestir stunda og því mikilvægt að hafa opið lengur í öllum sundlaugum borgarinnar en ekki bara í sumum. Ástæða þess að ég flutti tillöguna á sínum tíma var sú að mér þótti leitt til þess að vita að ekki gætti jafnræðis í þjónustu milli hverfa borgarinnar. Þannig var, eins og kannski einhverjir muna, að ekki stóð til að lengja afgreiðslutímann í sundlauginni í Grafarvogi sem er þó eitt stærsta hverfið í Reykjavík og fjölmennt barnahverfi.

Sundlaugar borgarinnar gegna mikilvægu hlutverki til eflingar lýðheilsu og hafa jafnframt félagslegt gildi fyrir borgarbúa. Lengri opnunartími á að gilda um allar laugar borgarinnar þannig að íbúum sé ekki mismunað eftir hverfum.

Ég vil að allir Reykvíkingar njóti þeirrar góðu þjónustu og aðstöðu sem sundstaðir borgarinnar hafa upp á að bjóða.

Sundlaugar borgarinnar gegna mikilvægu félagslegu hlutverki og eru mjög gjarnan samastaður þar sem íbúar hittast og spjalla um lífsins gagn og nauðsynjar. Í heita pottinum eins og flestir þekkja hittast grannar og kynnast jafnvel nýju fólki.

Sérstaða okkar hérlendis felst einmitt í sundlaugamenningu, margir fara daglega í sund annað hvort eldsnemma morguns eða kjósa að fara eftir vinnu og fá sér sundsprett. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að laugarnar séu opnar lengur fram á kvöld til að allir hafi tækifæri á nýta sér þess frábæru aðstöðu sem laugarnar hafa upp á bjóða .

Grafarvogsbúar, mig langar enn og aftur að óska ykkur til hamingju með lengdan opnunartíma og hvet ykkur sem flest til að nýta ykkur hann.

Greinin birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu 16. apríl 2018.