Valgerður Sigurðardóttir – 3. sæti í Reykjavík:
Hægt er að líkja Reykjavíkurborg við þjónustufyrirtæki þar sem henni ber að þjónusta íbúana á margvíslegan hátt, s.s. að sinna margs konar grunnþjónustu eins og daggæslu, leik- og grunnskólum, umhirðu, hreinsun gatna, þjónustu við aldraða og fatlaða svo dæmi séu tekin.
Það segir sig svo sem sjálft að mikil ábyrgð hvílir á herðum þeirra sem stjórna í stærsta sveitarfélagi landsins. Ekki síst vegna þess að þeir bera ábyrgð því að grunnþjónustan virki og að henni sé sinnt.
Nú þegar kemur að kosningum er rétt að spyrja sig hvort núverandi meirihluta hafi tekist vel til í þeim efnum? Sé horft til árlegrar þjónustukönnunar Gallup má sjá að Reykjavík fær falleinkunn á flestum sviðum frá Íbúum borgarinnar. Könnunin mælir árlega viðhorf og ánægju íbúa allra sveitarfélaga á landinu. Reykjavíkurborg skrapar botninn í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kemur að þjónustu bæði leikskóla og grunnskóla, þjónustu við eldri borgara og þjónustu við fatlaða. Þannig er svarið við spurningunni einfaldlega nei.
Eins og alki í afneitun
Í stað þess að nýta könnunina til þess að horfast í augu við vandann ákvað núverandi meirihluti að skella skolla eyrum við öllu tali um könnunina. Raunar ákvað meirihlutinn að ganga enn lengra og draga úr vægi hennar með því að varpa rýrð á hana og segja að hún mældi fremur ímynd þjónustunnar en ánægju þeirra sem nýti sér hana, svona eins og alki í afneitun.
Þannig ákvað meirihlutinn að það væri óþarfi að kaupa könnunina í þeirri viðleitni að nýta hana sem tól til að þekkja upplifun borgarbúa. Í stað þess var ákveðið að bregða á það ráð að kaupa nýja könnum, sem skilaði niðurstöðum sem komu mun betur út fyrir núverandi meirihluta. Þessi farsi hljómar eins og niðurstaðan hafi verið pöntuð.
Ef Reykjavíkurborg væri þjónustufyrirtæki á markaði en ekki stjórnvald hefð forstjórinn að öllum líkindum verið látinn fara.
Þannig er rétt að velta þeirri spurningu upp hvort það dugi meirihlutanum einfaldlega að dusta rykið af rykföllnu kosningaloforðum þriðja kjörtímabilið í röð? Loforðaflaum sem allir þekkja en ekki hefur staðið steinn yfir steini þegar kemur að efndum. Við þekkjum þessi loforð flest. Hver kannast ekki við að öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur, að byggðar verði upp 2500-3000 leiguíbúðir og byggingarlóðirnar sem lofað var? Og þetta er aðeins brotabrot af því sem lofað var. Fögur fyrirheit en engar efndir.
Við í Sjálfstæðisflokknum bjóðum ykkur upp á val í komandi kosningum. Val um breytt vinnubrögð og nýja nálgun þar sem horfst verður í augu við vandann. Val um borg þar sem grunnþjónustan verður ávallt í fyrsta sæti. Val um breytta borg, borg sem býður upp á fjölbreytileika og valfrelsi íbúanna. Borg sem hentar öllum. Breytum borginni!
Birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu 16. apríl 2018