Heiðarleika í umhverfismálum

Marta Guðjónsdóttur, 5. sæti í Reykjavík:

Ströndin meðfram Skjólunum, Ægisíðu og inn í Fossvoginn er einstök náttúruperla sem Vesturbæingar njóta í síauknum mæli, allan ársins hring. Grásleppuskúrarnir við Ægisíðu eru elstu minjar um smábátaútgerð í Reykjavík. Þeir eru í miklu uppáhaldi þeirra sem þar njóta útiveru og skólarnir hafa lengi nýtt sér þann vettvang til fræðslu um sjósókn og lífríki fjörunnar. Þessar slóðir hafa verið uppspretta ljóða og myndefni myndlistarmanna og ljósmyndara. Þarna voru lagðir fyrstu göngustígarnir í núverandi mynd enda iða þeir af mannlífi á góðviðrisdögum með börn að tína skeljar í fjörunni og hunda á hlaupum á meðan þeir eldri tylla sér á stein og njóta sjávarloftsins.

En nú er því miður ekki lengur hægt að treysta því að fjaran sé hrein og ómenguð. Leiðinlegt umhverfisóhapp varð á þessum slóðum í byrjun síðasta sumars þegar óhreinsað skólp rann í sjó fram svo vikum skipti. Það sem vakti athygli var að borgaryfirvöld sáu ekki minnstu ástæðu til að vara íbúana við og upplýsa almenning um atvikið heldur var það athugull íbúi  sem benti fjölmiðlum á að óhreinsað skólp rynni út í sjó við Faxaskjól.

Borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, lét sér hins vegar fátt um finnast og gætti þess sérstaklega að beita fyrir sig embættismönnum og fjölmiðladeild Ráðhússins. Hann lét ekki  ná í sig frekar en fyrri daginn þegar óþægileg mál koma upp. Af minna tilefni hefur þó verið blásið til blaðamannafundar í Ráðhúsinu.

Einhverjir myndu halda að borgaryfirvöld hefðu lært sína lexíu af þessu öllu saman og aukið umhverfisvaktina við ströndina í kjölfarið. En svo var nú heldur betur ekki, því fyrir skömmu, var það svo aftur íbúi  sem benti á það með Facebookfærslu sinni að óhreinsuðu skólpi hefði skolað á land við Ægisíðuna.

Í stað þess að bregðast strax við, hefja hreinsun og senda út tilkynningar og biðja íbúa afsökunar á þessum slóðaskap og mistökum, heyrðist ekkert frá borgarstjóranum um málið.  Upplýsingafulltrúi Veitna bætti hins vegar gráu ofan á svart með því að efna til viðburðar á sunnudags eftirmiðdegi og hvatti íbúa til að koma og plokka upp skólpið.

Öll þessi tilvik og ekki síður viðbrögð borgaryfirvalda hafa snúist upp í neyðarleg öfugmæli við  loforð um ábyrgð, upplýsingaskyldu og skilvirka stjórnsýslu.  Allir gera einhvern tímann mistök og óhöpp geta alltaf átt sér stað en þá skiptir mestu að greina frá mistökunum og læra af þeim svo þau endurtaki sig ekki.

Þessu þarf að breyta, við stöndum ekki vörð um umhverfi okkar og góða stjórnunarhætti með innantómu orðagjálfri. Við gerum þá lágmarkskröfu til stjórnmálamanna að þeir sýni umhverfi sínu og samfélagi lágmarks virðingu.

Greinin birtist fyrst í Vesturbæjarblaðinu, apríl 2018